Hinn 39 ára Logi skoraði þrjátíu stig í leiknum í Ljónagryfjunni í gær og var stigahæstur á vellinum.
Israel Martin, þjálfari Hauka, var að vonum ánægður með sigur manna sinna manna í gær en gat ekki annað en hrósað Loga fyrir frammistöðu hans.
„Ég meina vá, ég elska Loga. Hann er fyrirmynd fyrir alla unga leikmenn sem eru að koma upp í landinu. Hann tók leikinn yfir,“ sagði Martin við Stöð 2 Sport eftir leikinn í Njarðvík.
Hér fyrir neðan má sjá viðtal við Loga og Israel Martin auk helstu tilþrifa þess fyrrnefnda úr leiknum í gær.
Logi hitti úr sjö af þrettán skotum sínum fyrir utan þriggja stiga línuna, tveimur af þremur skotum inni í teig og öllum fimm vítaskotum sínum. Hann fékk tækifæri til að tryggja Njarðvík sigurinn á lokasekúndunum en skot hans geigaði.
Logi hefur jafnan fundið sig vel gegn Haukum en þrír síðustu þrjátíu stiga leikir hans hafa allir komið gegn Hafnarfjarðarliðinu í Ljónagryfjunni.
Njarðvík er í 7. sæti Domino's deildarinnar með tvö stig. Næsti leikur liðsins er gegn Tindastóli á Sauðárkróki á sunnudagskvöldið.

Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.