Lögregla hefur til rannsóknar skemmdarverk sem unnin voru á skrifstofu Samfylkingarinnar í nótt. Að minnsta kosti sex göt fundust á rúðum, sem virðast vera eftir skotvopn.
Jóhann Karl Þórisson, yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, segir mál á borð við þetta hafa komið upp hjá öðrum stjórnmálaflokkum og félagasamtökum undanfarið ár. Hjá Viðreisn í janúar 2020, Sjálfstæðisflokknum í maí 2020, Samtökum atvinnulífsins í september 2020 og nú hjá Samfylkingunni.
Í öllum tilfellum voru skemmdir unnar með skotvopnum, líklega loftriffli.
Skemmdir á Valhöll
Það hefur gerst oftar en einu sinni að skemmdarverk hafa verið unnin á Valhöll með einhvers konar skotvopnum. Hins vegar er nokkuð síðan það gerðist síðast, að sögn Þórðar Þórarinssonar, framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins.
Þegar ljósmyndara Vísis bar að garði í dag mátti hins vegar sjá brotna rúðu, sem virðist vera eftir grjótkast. Ekki er vitað hvenær það skemmdarverk átti sér stað.

Eldra mál hjá Pírötum
Á skrifstofum Pírata í Síðumúla sjást einnig ummerki um skemmdarverk sem virðast hafa verið unnin með skotvopnum eða einhverju öðru sem myndar lítil kringlótt göt.

„Það fundust tvö skotgöt árið 2018, ekki vitað hvort það var í einni eða tveimur „árásum“, þremur skotum var skotið á höfuðstöðvar í einu atviki árið 2019,“ sagði Stefán Óli Jónsson, starfsmaður þingflokks Pírata, í svari við fyrirspurn Vísis.
Ítarlega verður fjallað um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2 klukkan 18:30.