Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins virkjaði í kvöld nýjar reglur sem veita sambandinu heimild til að banna útflutning á bóluefni frá ríkjum sambandsins, ef viðkomandi lyfjafyrirtæki hefur ekki staðið við samninga við sambandið - líkt og ESB sakar AstraZeneca um að hafa gert.
ESB segir um að ræða „tímabundið fyrirkomulag“ en ekki útflutningsbann. Um hundrað ríki eru á undanþágulista frá heimildinni, þar á meðal Ísland og hin EFTA-ríkin. Þessi ákvörðun ESB stendur enn.
ESB gaf það hins vegar einnig út í dag að það hygðist virkja ákvæði í Brexit-samningnum sem snýr að útflutningi ESB til Norður-Írlands. Með því vildi sambandið koma í veg fyrir að Norður-Írlandi yrði eins konar „bakdyr“ fyrir innflutning bóluefnis frá Evrópu til Bretlands.
Bresk stjórnvöld lýstu yfir miklum áhyggjum vegna málsins í kvöld. Þá lýsti Arlene Foster, fyrsti ráðherra Norður-Írlands, ákvörðuninni sem „ótrúlegum fjandskap“ af hálfu ESB. Evrópusambandið tilkynnti þó að endingu í kvöld að það hefði hætt við að virkja ákvæðið.
Skella skuldinni hvort á annað
Evrópusambandið og AstraZeneca hafa staðið í deilum undanfarna daga eftir að fyrirtækið tilkynnti að það gæti ekki staðið við afhendingaráætlun sína á fyrsta ársfjórðungi. Bólusetning í Evrópu mun tefjast vegna þessa.
AstraZeneca hefur skellt skuldinni á ESB og sagt sambandið hafa verið of svifaseint að semja um kaup á bóluefni. Þannig skrifuðu Bretar undir samning við AstraZeneca þremur mánuðum á undan ESB.
ESB telur hins vegar að AstraZeneca beri að afhenda löndum sambandsins alla skammta sem samið var um. Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar ESB sagði til að mynda á Twitter í dag, um leið og hún tilkynnti að bóluefnið hefði fengið markaðsleyfi í Evrópu, að hún byggist við því að allir fjögur hundruð milljón skammtarnir frá AstraZeneca yrðu afhentir.
We have just authorised the @AstraZeneca vaccine on the EU market following a positive assessment by @EMA_News
— Ursula von der Leyen (@vonderleyen) January 29, 2021
I expect the company to deliver the 400 million doses as agreed. We will keep on doing all we can to secure vaccines for Europeans, our neighbours & partners worldwide