Valur laut í lægra haldi fyrir Haukum í Domino's deild karla í gær, 85-78. Þetta var þriðja tap Valsmanna í röð en þeir eru í 10. sæti deildarinnar með einungis sex stig.
Valsmenn gerðu sig gildandi á félagaskiptamarkaðnum fyrir tímabilið og fengu meðal annars Jón Arnór Stefánsson og Kristófer Acox frá KR og Sinisa Bilic frá Tindastóli. Þá tók Finnur Freyr Stefánsson við þjálfun liðsins.
Valur er hins ekki enn kominn með bandarískan leikmann og Jón Halldór skilur ekki af hverju liðið er ekki tilbúið.
„Þú þarft að móta liðið þitt. Það er ekki búið að móta þetta Valslið. Þeir fá inn einhverja leikmenn, Kristó fer meiddur. Jón Arnór var í ágætis takti í dag [í gær], Pavel ekki en við vitum alveg hversu góður hann er,“ sagði Jón Halldór í Domino's Tilþrifunum í gær.
„Þeir eru ekki með bandarískan leikmann og svo er Kristó meiddur. Þetta er vesen. Ég skil ekki af hverju þeir eru ekki búnir að gera meira til að móta liðið sitt. Ég er ekki viss um að Jón Arnór, Pavel og Kristó séu þarna bara til að fá matarmiða. Þetta kostar fullt af peningum. Farðu inn í helvítis mótið og reyndu að vinna það. Ég geri ráð fyrir að þeir hafi keypt þessa gæja til þess. Mér finnst þetta algjör meðalmennska og þú vinnur ekkert í meðalmennsku, ekki einu sinni í Ólsen.“
Síðasti leikur Vals fyrir landsleikjahléið er gegn toppliði Keflavíkur á föstudagskvöldið. Valsmenn fá þá tækifæri til að vinna aðeins annan heimaleikinn á tímabilinu.

Domino's Körfuboltakvöld er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Domino's-deildir karla og kvenna í körfubolta og er á dagskrá öll föstudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland.