Fótbolti

Alfons og allir í meistaraliði Bodö/Glimt í sóttkví

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfons Sampsted í leik með 21 árs landsliðinu.
Alfons Sampsted í leik með 21 árs landsliðinu. Vísir/Vilhelm

Titilvörn norsku meistarana í Bodö/Glimt fer ekki nógu vel af stað. Liðið er reyndar ekki byrjað að spila en gengur illa að æfa þökk sé kórónuveirufaraldursins.

Alfons Sampsted og félagar í meistaraliði Bodö/Glimt þurftu allir að fara í sóttkví í gærkvöldi en þetta kemur fram á heimasíðu norska félagsins.

Einhverjir af leikmönnum Bodö/Glimt voru í návígi við smitaðan einstakling og því þurfa bæði leikmann og þjálfarar liðsins að halda sér til hlés. Leikmenn fóru líka í kórónuveirupróf og félagið bíður niðurstaðna úr þeim.

Það er bara ein vika síðan að allt Bodö/Glimt gat loksins æft saman á nýjan leik. Liðið er að undirbúa sig fyrir titilvörnina eftir að hafa unnið norsku deildina í fyrsta sinn í sögunni í fyrra.

Þetta er ekki fyrsta tilfellið á undirbúningstímabilinu þar sem kórónuveiran setur allt í uppnám hjá Bodö/Glimt.

Victor Boniface fékk kórónuveiruna í byrjun undirbúningstímabilsins og fjórtán af leikmönnum liðsins fóru í framhaldinu í sóttkví. Þeir sluppu úr henni 25. janúar og liðið gat þó loksins æft allt saman.

Liðið átti að æfa í dag en klukkan ellefu í gærkvöldi fengu leikmenn að vita að þeir væru komnir í sóttkví en þetta kom fram í staðarblaðinu AN.

Alfons Sampsted er varafyrirliði íslenska 21 árs landsliðsins og framundan er því úrslitakeppni EM í mars. Það er því mikilvægt fyrir okkar mann að komast í sitt besta form fyrir það mót.

Alfons bætir leikjamet sitt í hverjum leik með 21 árs landsliðinu en hann varð í fyrra sá fyrsti til að spila 30 leiki fyrir íslenska 21 árs landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×