Sport

Gamli Valsmaðurinn entist stutt í starfi í ensku b-deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dean Holden á hliðarlínunni sem knattspyrnustjóri Bristol City í enska bikarnum.
Dean Holden á hliðarlínunni sem knattspyrnustjóri Bristol City í enska bikarnum. Getty/Stu Forster

Dean Holden var í dag rekinn úr starfi sínum sem knattspyrnustjóri Bristol City í ensku b-deildinni.

Síðasti leikur Bristol City liðsins undir stjórn Holden var 2-0 tap á móti Reading í gær en þetta var sjötta tap liðsins í röð.

Bristol City var í áttunda sæti eftir 2-1 sigur á Huddersfield Town 26. janúar síðastliðinn. Síðan þá hefur liðið ekki fengið stig og tapað sex leikjum í röð með markatölunni 2-14.

Bristol City er þrátt fyrir þessa eins og hálfs mánaða taphrinu enn í þrettánda sæti deildarinnar en tvö lið gætu komist uppp fyrir liðið með því að vinna leik sem þau eiga inni.

Dean Holden er 41 árs gamall og var aðstoðarstjóri Lee Johnson hjá Bristol City í fjögur ár áður en tók við stjórastöðunni. Lee Johnson var látinn fara í júlí og Holden tók fyrst við tímabundið. Í ágúst fékk hann eins árs samning.

Holden spilaði síðustu leiki ferilsins með Walsall á árinum 2012 til 2014. Hann spilaði flesta leiki fyrir Oldham Athletic og byrjaði stjóraferil sinn sem aðstoðarstjóri hjá Oldham tímabilið 2014 til 2015.

Dean Holden er með Íslandstengingu því hann spilað með Valsliðinu sumarið 2001. Holden kom þá til Hlíðarendaliðsins á láni frá Bolton Wanderers.

Holden kom til Vals í maí og hafði þá endaði tímabilið með Bolton með því að vera valinn maður leiksins í lokaleiknum. Á þessum tíma var hann að koma til baka eftir fótbrot. Holden spilaði með Val þar til í byrjun júlí þegar hann var kallaður til æfinga hjá Bolton.

Dean Holden spilaði 9 leiki með Valsliðinu, sjö í deild og tvo í bikarnum. Hann var í byrjunarliðinu í öllum leikjunum en náði ekki að skora í Valsbúningnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×