Körfubolti

Rekinn eftir tap í New York

Sindri Sverrisson skrifar
Ryan Saunders er ekki lengur þjálfari Minnesota Timberwolves.
Ryan Saunders er ekki lengur þjálfari Minnesota Timberwolves. Getty/Michael Reaves

Minnesota Timberwolves eru með versta árangurinn í NBA-deildinni á þessari leiktíð og hafa nú rekið þjálfara sinn. Liðið tapaði 103-99 gegn New York Knicks í gær og hefur aðeins unnið sjö leiki en tapað 24 í vetur.

Ryan Saunders varð yngsti þjálfarinn í deildinni þegar hann tók við Minnesota árið 2019, 33 ára gamall. Undir hans stjórn vann liðið alls 43 leiki en tapaði 94.

Forráðamenn Minnesota hafa samkvæmt The Athletic þegar gengið frá ráðningu eftirmanns Saunders. Sá heitir Chris Finch og er aðstoðarþjálfari Toronto Raptors. Finch er fyrrverandi þjálfari enska landsliðsins en hefur þjálfað í NBA-deildinni frá árinu 2011.

Knicks eru eftir sigurinn í 7. sæti austurdeildar með 15 sigra en 16 töp, en sex efstu liðin komast beint í úrslitakeppnina og liðin í 7.-10. sæti fara í umspil um tvö sæti í úrslitakeppninni.

Boston missti niður 24 stiga forskot

Boston Celtics eru í sætinu fyrir ofan Knicks en þeir köstuðu frá sér 24 stiga forskoti gegn New Orleans Pelicans í gær. New Orleans vann í framlengingu, 120-115.

Boston komst í 79-55 í þriðja leikhluta en varð að lokum að sætta sig við tap. Brandon Ingram skoraði 33 stig fyrir New Orleans, þar á meðal þriggja stiga körfu þegar 33 sekúndur voru eftir af framlengingunni en það reyndist ráða úrslitum.

Zion Williamson skoraði 24 af 28 stigum sínum eftir fyrri hálfleik, og tók 10 fráköst. Jayson Tatum skoraði 32 stig og tók 9 fráköst fyrir Boston og Jaylen Brown skoraði 25.

Úrslitin í gær:

  • New Orleans 120-115 Boston
  • Cleveland 101-117 Oklahoma
  • Orlando 105-96 Detroit
  • Toronto 110-103 Philadelphia
  • New York 103-99 Minnesota
  • Atlanta 123-115 Denver
  • LA Clippers 108-112 Brooklyn
  • Milwaukee 128-115 Sacramento
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×