Íslenski boltinn

Blikar kláruðu Eyjamenn undir lok leiks

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gísli Eyjólfsson skoraði fyrra mark Breiðabliks í dag.
Gísli Eyjólfsson skoraði fyrra mark Breiðabliks í dag. Vísir/Bára

Breiðablik vann ÍBV 2-0 er liðin mættust á Kópavogsvelli í Lengjubikar karla í knattspyrnu. Heimamenn eru því með þrjá sigra í þremur leikjum á meðan ÍBV hefur tapaða öllum þremur leikjum sínum.

Brynjólfur Andersen Willumsson var frá vegna meiðsla og þá þurfti Thomas Mikkelsen að yfirgefa völlinn snemma leiks, einnig vegna meiðsla. Blikum gekk í kjölfarið illa að brjóta þéttan múr Eyjamanna niður.

Eftir markalausan fyrri hálfleik þá stefndi í að síðari hálfleikur yrði einnig markalaus en Gísli Eyjólfsson braut loksins ísinn þegar tíu mínútur lifðu leiks. Aðeins tveimur mínútum síðar var Viktor Karl Einarsson felldur innan teigs og vítaspyrna dæmd.

Varamaðurinn Guðjón Pétur Lýðsson fór á punktinn og skoraði af öryggi þó Halldór Páll Geirsson, markvörður ÍBV, hafi farið í rétt horn. Staðan orðin 2-0 og reyndust það lokatölur leiksins.

Blikar sitja á toppi riðilsins með níu stig í þremur leikjum, það sem meira er þá hefur liðið ekki enn fengið á sig mark. ÍBV – sem leikur Lengjudeildinni á næstu leiktíð – er á botni riðilsins án sigurs líkt og Fjölnir en Eyjamenn eru með verri markatölu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×