Körfubolti

Með fimmtíu stig og stáltaugar í lokin

Sindri Sverrisson skrifar
Damian Lillard kominn að körfunni í sigrinum á New Orleans Pelicans.
Damian Lillard kominn að körfunni í sigrinum á New Orleans Pelicans. Getty/Steve Dykes

„Þetta er leikur sem ég á eftir að muna eftir,“ sagði Damian Lillard eftir að hafa bjargað Portland Trail Blazers um sigur með kynngimagnaðri frammistöðu gegn New Orleans Pelicans í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Lillard skoraði alls 50 stig í leiknum auk þess að gefa tíu stoðsendingar. Portland var 17 stigum undir þegar um sex mínútur voru eftir af leiknum en Lillard tryggði liðinu á endanum 125-124 sigur með tveimur vítaskotum þegar 1,2 sekúnda var eftir.

Lillard skoraði 20 stig í lokafjórðungnum og endaði með sex þriggja stiga körfur. Þökk sé honum er Portland nú með 23 sigra í 5.-6. sæti vesturdeildar. New Orleans fjarlægðist hins vegar úrslitakeppnina og er í 11. sæti með fjórum töpum meira en næsta lið, Memphis Grizzlies.

Utah Jazz er með bestu stöðuna af öllum liðum og komst aftur á sigurbraut með 117-109 sigri á Boston Celtics eftir góðan lokaleikhluta.

Philadelphia 76ers eru á toppi austurdeildar og unnu 99-96 sigur á New York Knicks. Tobias Harris skoraði 30 stig en þetta var sjötti sigur Philadelphia í röð.

LeBron James náði svo sinni 99. þreföldu tvennu í 137-121 sigri Los Angeles Lakers á Minnesota Timberwolves. James skoraði 25 stig, tók 12 fráköst og gaf 12 stoðsendingar. Lakers eru í 3. sæti vesturdeildar en Minnesota á botninum.

Úrslitin í nótt:

  • Boston 109-117 Utah
  • Miami 113-98 Cleveland
  • Philadelphia 99-96 New York
  • Chicago 123-102 Oklahoma
  • Houston 107-119 Atlanta
  • Portland 125-124 New Orleans
  • LA Lakers 137-121 Minnesota
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×