Fótbolti

Segir að Kane þurfi að fara því hann muni ekki vinna stóru titlana hjá Tottenham

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Harry Kane hefur verið orðaður við brottför frá Tottenham í sumar.
Harry Kane hefur verið orðaður við brottför frá Tottenham í sumar. getty/Tottenham Hotspur FC

Roy Keane, fyrrverandi fyrirliði Manchester United, segir að Harry Kane þurfi að yfirgefa Tottenham í sumar, ætli hann sér að vinna titla á ferlinum.

Kane hefur verið besti leikmaður Tottenham undanfarin ár og skorað grimmt fyrir liðið. Hann hefur samt ekki enn unnið titil sem leikmaður Spurs og margir eru á því að hann þurfi að róa á önnur mið. Keane er einn þeirra.

„Ef þú ert topp leikmaður viltu vinna stóru titlanta. Það eru stórir mánuðir framundan hjá Tottenham, úrslitaleikur í deildabikarnum og ná þeir Meistaradeildarsæti? Þetta eru stórar spurningar og mun þetta hafa áhrif á hann,“ sagði Keane á iTV eftir leik Albaníu og Englands í undankeppni HM 2022 í gær.

Kane skoraði fyrra mark Englands í leiknum en þetta var hans fyrsta landsliðsmark í fimm hundruð daga.

Kane, sem verður 28 ára á þessu ári, á þrjú ár eftir af samningi sínum við Tottenham.

„Hann er samningsbundinn og Tottenham mun hafa mikið að segja um framtíð hans. En ef þú setur þig í hans spor held ég að hann þurfi að fara til að vinna stóru titlana. Hann gerir það ekki hjá Tottenham,“ sagði Keane.

Kane gæti unnið sinn fyrsta titil með Tottenham þegar liðið mætir Chelsea í úrslitaleik deildabikarsins 25. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×