Vesturbæingurinn Teitur vekur máls á því, á Facebooksíðu lögreglunnar, að rétt eins og náttúran taki við sér og líf vakni að vori, þá vakni einnig verri hlutir:
„Hraðakstur á Hringbraut er árviss viðburður þegar vora tekur og sumarið gengur í garð. Það eru kappaksturshópar sem hittast á Grandanum og þangað þeysast þeir með miklum og truflandi hávaða á kvöldin.“
Vísir hefur áður fjallað um þetta fyrirbæri og Vesturbæingar hafa lengi kvartað undan þessu en allt kemur fyrir ekki.
Til dæmis má sjá í frétt Vísis frá árinu 2016 að þetta er þrálátur vandi: Vælandi dekk og spyrnuakstur hafa haldið vöku fyrir íbúum í Vesturbænum sem standa ráðþrota frammi fyrir vandamálinu. Sjá má myndbandsupptöku en þar hamast ökufantur á bíl sínum sem mest hann má.
Fram kemur að Byko-planið er orðið hið nýja Hallærisplan, þangað hópist ungmenni um kvöld og helgar, jafnvel hundruðum saman.

Tugir mæta á bílum sínum og vilja sýna bílakúnstir sem felst í spyrnum á hljóðkútslausum bílum auk þess sem vinsælt er að reykspóla þannig að vælir í dekkjum. Hávaðinn sem fylgir er óskaplegur.
Fátt virðist breytast:
„Það er eins og sumir ráði ekki við sig að sjá beina Hringbílarbrautina þegar sólin er lágt á lofti og gatan tóm. Þetta er afskaplega hvimleitt og íbúar við Hringbraut hafa bundist samtökum gegn þessari óværu,“ segir Teitur.
Hann hvetur lögregluna til dáða; að hraðamæla Hringbraut (frá Suðurgötu og að Ánanaustum). „Þar er 40 km hámarkshraði sem margir virða að vettugi. Endilega mælið þegar hraða-fíklarnir fara á stjá. Læti byrja upp úr kl 20 og standa oft fram yfir miðnætti.“
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu heitir Teiti því að hún muni skoða málið.