Ástæðan er sú að kennarastéttinni var skipt í tvennt vegna áhyggja af að öll stéttin myndi vera frá kennslu á sama tíma vegna áhrifa af bóluefninu.
Margoft hefur komið fram að slappleiki í kjölfar bólusetningar sé eðlilegur hlutur. Líkaminn bregðist þannig við bóluefninu og sé þannig búinn undir að verjast Covid-19 veirunni. Margir verða slappir en flestir aðeins fyrsta sólarhringinn.
Ari fékk boð en Ólöf þarf að bíða
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins segir ósk hafa borist frá kennurum um að hópnum yrði skipt. Og þá sé spurning hvernig eigi að gera það.
„Það var ákveðið að taka helminginn og miða við stafrófsröðina,“ segir Ragnheiður í samtali við Vísi. Leikskóla-, grunnskóla og framhaldsskólakennarar sem eru í fyrri hluta stafrósins fengu því boð um mætingu í dag.
„Við náðum A-K í leikskólunum og A-L í skólunum,“ segir Ragnheiður.
Óvíst hvenær næsti Janssen skammtur berst
Fyrri hópurinn var hluti af þeim sem fengu þá sex þúsund skammta af Janssen bóluefninu í dag en bóluefnið krefst aðeins einnar sprautu. Síðari hópur kennara verður að sögn Ragnheiðar boðaður seinna. Óvíst er hvenær.
„Við fáum að vita í lok hverrar viku hvað sóttvarnalæknir skammtar okkur,“ segir Ragnheiður.
Bólusetning hafi gengið vel fyrir sig í dag að frátaldri sá töf í morgun vegna þess að skammtarnir í glösunum reyndust frekar litlir og dálítið seigir. Því hafi tekið aðeins lengri tíma að draga efnið í sprautuna.
Á morgun mæta svo landsmenn fæddir á því herrans ári 1966 og fá AstraZeneca sprautu.