Erlent

Drengur í rusla­gámi látinn eftir tæmingu

Atli Ísleifsson skrifar
Frá strönd í úthverfi Port Lincoln í Ástralíu.
Frá strönd í úthverfi Port Lincoln í Ástralíu. Getty

Þrettán ára drengur kramdist til bana í öskubíl í Ástralíu eftir að hafa sofnað ásamt tveimur félögum sínum í ruslagámi.

Atkvikið átti sér stað á bílastæði skyndibitastaðar í Port Lincoln á suðurströnd Ástralíu. Bílstjóri öskubílsins vissi ekki að nokkur væri inni í gámnum þegar hann tæmdi úr honum í öskubílinn. Bílstjórinn er sagður í miklu áfalli vegna málsins.

Auk hins látna voru tveir drengir , ellefu og tólf ára, sofandi í gámnum, en öðrum þeirra tókst að sleppa úr gámnum á meðan hinn slapp með minniháttar meiðsl.

Rannsókn er nú hafin á málinu og þar með talið af hverju drengirnir voru sofandi í gámnum.

Í frétt Port Lincoln Times er haft eftir Jo Clark, framkvæmdastjóra æskulýðsmiðstöðvarinnar West Coast Youth and Community Support í Suður-Ástralíu að piltarnir þrír væru reglulegir gestir miðstöðvarinnar og góðkunningjar starfsfólks. 

Drengurinn sem lést hafi ekki verið heimilislaus, en líkt og svo margir aðrir átt í vandræðum með að fóta sig í lífinu og af ýmsum ástæðum sofið utandyra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×