Ljóst er að Ítalir ætla sér stóra hluti á mótinu sem er kærkomið tækifæri til að gleðja ítölsku þjóðina eftir afar erfiða tíma. Á meðan að lið á borð við Ísland léku á síðasta stórmóti, HM í Rússlandi, sátu Ítalir heima en þeir hafa náð sér vel á strik undir stjórn nýs þjálfara.
Tyrkland og Sviss hafa sýnt að þau geta unnið bestu þjóðir álfunnar en Tyrkir fengu til að mynda fjögur stig gegn heimsmeisturum Frakka í undankeppni EM. Það stefnir því í harða baráttu um sæti í 16-liða úrslitum og Walesverjar, sem komust í undanúrslit á síðasta EM, ætla sér að vera með í þeirri baráttu og koma á óvart á ný.
LEIKIRNIR Í A-RIÐLI:
- 11. júní kl. 19: Tyrkland - Ítalía, Róm
- 12. júní kl. 13: Wales - Sviss, Bakú
- 16. júní kl. 16: Tyrkland - Wales, Bakú
- 16. júní kl. 19: Ítalía - Sviss, Róm
- 20. júní kl. 16: Sviss - Tyrkland, Bakú
- 20. júní kl. 16: Ítalía - Wales, Róm

Tyrkland
Þjálfari: Senol Günes
Stjörnur liðsins: Hakan Calhanoglu (AC Milan), Caglar Söyüncü (Leicester), Burak Yilmaz (Lille).
Árangur á EM: Fjórum sinnum með (1996, 2000, 2008 og 2016). Besti árangur 3. sæti 2008.
Tyrkir komu sér á EM þrátt fyrir að fá aðeins eitt stig út úr leikjum sínum við Ísland í undankeppninni. Þeir sýndu mátt sinn í leikjunum við heimsmeistara Frakka sem á endanum dugði þeim til að komast á EM.
Tyrkir fóru ágætlega af stað í undankeppni HM í mars, unnu sigra á Hollandi og Tyrklandi, og gætu reynst hvaða liði sem er erfiðir á EM.
Senol Günes tók við þjálfun Tyrkja árið 2019, eftir að hafa gert Besiktas tvisvar að Tyrklandsmeisturum, en þessi fyrrverandi markvörður var einnig við stjórnvölinn þegar Tyrkland náði sínum besta árangri í sögunni með því að vinna brons á HM 2002.

Ítalía
Þjálfari: Roberto Mancini
Stjörnur liðsins: Marco Verratti (PSG), Ciro Immobile (Lazio), Lorenzo Insigne (Napoli).
Árangur á EM: Níu sinnum með (1968, 1980, 1988, 1996, 2000, 2004, 2008, 2012, 2016). Besti árangur: Evrópumeistarar 1968 á heimavelli.
Roberto Mancini hefur blásið nýju lífi í ítalska landsliðið. Hann tók við því eftir einn myrkasta dag í sögu þess þegar Ítalíu mistókst, í fyrsta sinn í 60 ár, að komast á HM í Rússlandi 2018. Síðan hefur leiðin legið upp á við.
Ítalía hefur ekki tapað einum einasta leik síðan Mancini tók við og vann alla tíu leiki sína í undankeppni EM. Liðið hefur haldið áfram á sömu braut með því að vinna fyrstu þrjá leiki sína í undankeppni HM í mars, alla 2-0.
Leikirnir hafa þó ekki verið gegn neinum af bestu þjóðum álfunnar en Ítalía ætti engu að síður ekki að eiga í vandræðum með að komast í 16-liða úrslitin – hvað þá á heimavelli sínum í Róm. Það skemmir þó fyrir að miðjumaðurinn Marco Verratti, lykilmaður í spili liðsins, skuli staddur í kapphlaupi við tímann vegna hnémeiðsla.

Sviss
Þjálfari: Vladimir Petkovic
Stjörnur liðsins: Granit Xhaka (Arsenal), Xherdan Shaqiri (Liverpool).
Árangur á EM: Fjórum sinnum með (1996, 2004, 2008 og 2016). Besti árangur 16-liða úrslit á EM 2016.
Svisslendingar hafa verið með á síðustu þremur stórmótum í röð eða frá því að þeir skildu Íslendinga eftir og komust á HM í Brasilíu 2014. Vladimir Petkovic tók við Sviss það ár og hefur gert ágæta hluti með liðið, komið því í 16-liða úrslit á HM og EM en ekki lengra.
Sviss vann sinn riðil í undankeppni EM, eftir keppni við Danmörku og Írland, og fór vel af stað í undankeppni HM í mars með því að vinna fyrstu þrjá leiki sína. Liðið er með nokkra hágæðaleikmenn og hefur sýnt að það getur staðist bestu liðum álfunnar snúninginn.

Wales
Þjálfari: Rob Page í fjarveru Ryans Giggs.
Stjörnur liðsins: Gareth Bale (Tottenham), Aaron Ramsey (Juventus), Daniel James (Manchester United).
Árangur á EM: Einu sinni með, á EM 2016, og komst í undanúrslit.
Wales er í þeirri sérstöku stöðu að fara á EM án þjálfara síns, Ryans Giggs, sem ákærður hefur verið fyrir heimilisofbeldi. Rob Page stýrði Wales í fyrstu leikjunum í undankeppni HM og verður við stjórnvölinn á EM.
Walesverjar, og ekki síst Will Grigg sem þó spilaði lítið, stálu senunni litlu síður en Ísland á síðasta EM þegar þeir léku í fyrsta sinn á mótinu. Þeir komust í undanúrslit en játuðu sig þar sigraða gegn verðandi Evrópumeisturum Portúgals.
Wales tryggði sér sæti á EM með 2-0 sigri gegn Ungverjalandi í æsispennandi keppni í E-riðli undankeppninnar, þar sem liðið endaði í 2. sæti á eftir Króatíu en fyrir ofan Slóvaka og Ungverja.
Hvað tekur við?
Tvö efstu liðin í riðlinum eru örugg um sæti í 16-liða úrslitum. Fjögur lið með bestan árangur í 3. sæti, í riðlunum sex, komast einnig í 16-liða úrslitin.
Sigurliðið í A-riðli mætir liðinu úr 2. sæti í C-riðli (Holland, Úkraína, Austurríki, Norður-Makedónía).
Liðið úr 2. sæti í A-riðli mætir liðinu úr 2. sæti í B-riðli (Danmörk, Finnland, Belgía, Rússland).
Liðið úr 3. sæti í A-riðli gæti mögulega mætt sigurliði B-, E- eða F-riðils.