Ófremdarástand hefur ríkt á Indlandi vegna faraldursins undanfarnar vikur. Þrátt fyrir að færri greinist nú smitaðir en þegar bylgjan reis sem hæst var tilkynnt um 283.248 ný smit í gær. Það eru þó aðeins opinberar tölur og telja sérfærðingar að mun fleiri hafi smitast og látist í faraldrinum á Indlandi vegna þess hversu lítið hefur verið skimað þar hlutfallslega.
Fjöldi dauðsfalla síðasta sólarhringinn sló met sem var sett í Bandaríkjunum 12. janúar þegar 4.475 manns létust á einum sólarhring samkvæmt tölum Johns Hopkins-háskóla í Bandaríkjunum. Síðasta mánuðinn hefur fjöldi dauðsfalla í faraldrinum sexfaldast á Indlandi.
AP-fréttastofan segir að veiran breiðist nú út í dreifbýli þar sem heilbrigðisþjónusta og skimun er af skornum skammti. Sérstaklega er ástandið sagt slæmt í Uttar Pradesh, fjölmennsta ríki Indlands þar sem fleiri en 136.000 manns að minnsta kosti eru með virkt smit.
Fjöldi fólks í ríkinu er sagður látast af völdum hita og mæði áður en hann kemst nokkru sinni í sýnatöku. Líkin hrannast nú upp við Gangesfljót þar sem ekki til nægilega mikill viður til að bálstofur anni eftirspurn.