Körfubolti

Stórvinirnir LeBron og Chris Paul mætast í fyrsta sinn í úrslitakeppninni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
LeBron James og Chris Paul hafa mæst ótal sinnum á ferlinum en aldrei í úrslitakeppninni.
LeBron James og Chris Paul hafa mæst ótal sinnum á ferlinum en aldrei í úrslitakeppninni. getty/Harry How

Úrslitakeppnin í NBA-deildinni í körfubolta í hefst um helgina og verða þrír leikir sýndir á Stöð 2 Sport. Meðal þeirra er fyrsti leikurinn í einvígi Phoenix Suns og Los Angeles Lakers þar sem stórvinirnir Chris Paul og LeBron James eru í aðalhlutverkum.

Þrátt fyrir að James hafi spilað í NBA síðan 2003 og Paul síðan 2005 hafa þeir aldrei mæst í úrslitakeppninni. Þeir hafa ekki verið í sömu deild nema síðustu þrjú tímabilin og Paul hefur aldrei komist í úrslit NBA þar sem LeBron hefur verið fastagestur undanfarin ár.

Lið þeirra LeBrons og Pauls hafa 28 sinnum mæst í NBA í gegnum tíðina. LeBron hefur fimmtán sinnum fagnað sigri en Paul þrettán sinnum.

LeBron James og Chris Paul fagna sigri Bandaríkjanna á Spáni á Ólympíuleikunum 2012.getty/Tim Clayton

Paul er á sínu fyrsta tímabili hjá Phoenix og hefur gjörbreytt liðinu. Það sýndi hvað í það var spunnið í búbblunni í Las Vegas síðasta haust og koma Pauls hefur gert gott lið enn betra. Devin Booker og Deandre Ayton hafa notað góðs af leiðtogahæfileikum Pauls og rulluspilararnir eru alltaf að verða betri. 

Phoenix var með næstbesta árangurinn í Vesturdeildinni, vann 51 leik, aðeins einum leik færra en topplið Utah Jazz.

Á meðan lentu meistarar Lakers í miklum hremmingum vegna meiðsla lykilmanna. LeBron missti af 27 leikjum og Anthony Davis 39 leikjum. Eftir að þeir heltust úr lestinni seig Lakers niður töfluna og endaði að lokum í 7. sæti Vesturdeildarinnar.

Lakers þurfti því að fara í umspil um sæti í úrslitakeppninni. Þar mætti liðið Golden State Warriors með sjóðheitan Stephen Curry í broddi fylkingar. Lakers vann leik liðanna í Staples Center, 103-100, þar sem LeBron setti niður stóra þriggja stiga körfu undir lokin.

Lakers og Phoenix mættust síðast í úrslitakeppninni fyrir ellefu árum, þá í úrslitum Vesturdeildarinnar. Lakers vann einvígið, 4-2, og varð svo meistari eftir sigur á Boston Celtics í úrslitum, 4-3. Kobe Bryant heitinn var aðalmaðurinn í liði Lakers á þessum tíma á meðan Steve Nash fór fyrir Phoenix.

Fyrsti leikur Phoenix og Lakers hefst klukkan 19:30 annað kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 3.

Klukkan 17:00 hefst fyrsti leikur Philadelphia 76ers og Washington Wizards á Stöð 2 Sport 3. Philadelphia vann Austurdeildina í fyrsta sinn í tuttugu ár á meðan Washington komst í úrslitakeppnina með því að vinna Indiana Pacers, 142-115, í umspilinu.

Klukkan 20:30 í kvöld hefst svo fyrsti leikur Los Angeles Clippers og Dallas Mavericks á Stöð 2 Sport 2.

Þessi lið mættust einnig í 1. umferð úrslitakeppninnar á síðasta tímabili. Þá vann Clippers einvígið, 4-2, þrátt fyrir hetjulega tilburði Lukas Doncic.

Slóveninn magnaði tryggði Dallas meðal dramatískan sigur í fjórða leiknum með því að setja niður flautuþrist í lok framlengingar.

Doncic skoraði 43 stig, tók sautján fráköst og gaf þrettán stoðsendingar í leiknum. Í einvíginu var Slóveninn með 31,0 stig, 9,8 fráköst og 8,7 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Clippers tapaði óvænt fyrir Denver Nuggets, 4-3, í undanúrslitum Vesturdeildarinnar eftir að hafa komist í 3-1 í einvíginu. Það kostaði Doc Rivers þjálfarastarfið. Tyronn Lue, sem gerði Cleveland Cavaliers að meisturum 2016, tók við og nú þarf Clippers-liðið að sýna að það hafi tekið skref fram á við frá því í fyrra.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA

Tengdar fréttir

Sá þrefalt en skaut Lakers í úrslitakeppnina

LeBron James harkaði af sér ökklameiðsli og kom meisturum LA Lakers í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt. Lakers unnu Golden State Warriors 103-100 í umspilsleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×