Héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði félagið gjaldþrota 14. maí, að því er sagði í tilkynningu í Lögbirtingablaðinu. DV sagði fyrst frá gjaldþrotinu. Félagið kom meðal annars við sögu í umdeildri Kickstarter-söfnun sem var stöðvuð og meintum viðskiptum við kínverskt stórfyrirtæki.
RH16 ehf. var alfarið í eigu Ágústs Arnar. Í ákæru héraðssaksóknara á hendur honum og bróður hans Einars vegna fjársvika og peningaþvættis í tengslum við Zuism kom fram að þeir hefðu fært 750.000 krónur beint og óbeint úr sjóðum trúfélagsins inn á reikning RH16. Bræðurnir eru sakaðir um að hafa ráðstafað fjármunum trúfélagsins, sem þáði tugi milljóna króna frá ríkinu í formi sóknargjalda, í eigin þágu. Þeir hafi eytt milljónum króna í veitingahús, áfengi og ferðalög.
Aðeins 1,27 milljónir króna voru eftir á reikningi Zuism af þeim rúmlega 84,7 milljónum sem félagið fékk frá ríkinu í maí árið 2019 en héraðssaksóknari krefst upptöku á hátt í fimmtíu milljónum króna hjá félögum Einars Ágústssonar og Zuism.
Kickstarter-söfnun og meint viðskipti við kinverskt stórfyrirtæki
Félag Ágústs Arnars sem nú er gjaldþrota átti sér skrautlega sögu. Það hét áður Janulus ehf. og var á sínum tíma skráð fyrir söfnun bræðranna fyrir svonefndri Trinity-vindmyllu á bandarísku fjáröflunarsíðunni Kickstarter. Bræðurnir voru gjarnan kenndi við Kickstarter í fjölmiðlum á þeim tíma.
Kickstarter stöðvaði söfnun bræðranna fyrir þegar þeir höfðu safnað tæpum tuttugu milljónum króna árið 2015. Þá höfðu þeir verið til rannsóknar um tíma vegna meintra fjársvika. Í skriflegu svari Kickstarter til Vísis í nóvember árið 2018 kom fram að fyrirtækið gæti ekki tjáð sig um ástæður þess að söfnuninni var lokað vegna þess að það hefði unnið með „löggæsluyfirvöldum“ vegna verkefna bræðranna.
Árið 2018, eftir að Ágúst Arnar tók við stjórnartaumum í Zuism, var umsókn hans fyrir hönd félagsins um hátt í einnar og hálfrar milljónar króna styrk úr Tækniþróunarsjóði Rannís samþykkt. Þá hafði hann breytt nafni félagsins í RH16. Styrkurinn var vegna sólarselluverkefnis.
Í maí sama ár sagði Ágúst Arnar Morgunblaðinu að kínverska fyrirtækið Goldwind hefði keypt hugverkarétt að Trinity-vindmyllunni sem þeir bræður söfnuðu fyrir á Kickstarter á sínum tíma. Goldwind ætlaði sér að setja Trinity á markað í Kína og RH16 ætti að veita ráðgjöf við verkefnið.
Talskona Goldwind vísaði því á bug að fyrirtækið hefði átt í viðskiptum, samstarfi eða samskiptum við RH16 þegar Vísir spurðist fyrir um fréttina í desember 2018. Í yfirlýsingu sem Ágúst Arnar sendi frá sér eftir að frétt Vísis birtist hélt hann því engu að síður áfram fram að hann hafi átt í viðskiptum við fulltrúa Goldwind. Því hafnaði talskona Goldwind aftur þegar Vísir bar þær fullyrðingar undir hana.