Körfubolti

Embiid fór meiddur af velli þegar Philadelphia tapaði í höfuðborginni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Russell Westbrook hitti skelfilega gegn Philadelphia 76ers en náði þrefaldri tvennu eins og venjulega.
Russell Westbrook hitti skelfilega gegn Philadelphia 76ers en náði þrefaldri tvennu eins og venjulega. getty/Tim Nwachukwu

Joel Embiid fór meiddur af velli þegar Philadelphia 76ers tapaði fyrir Washington Wizards, 122-114, í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í nótt.

Með sigri hefði Philadelphia tryggt sér sæti í undanúrslitum Austurdeildarinnar en staðan í einvíginu er nú 3-1.

Embiid lék aðeins í ellefu mínútur áður en hann fór af velli vegna hnémeiðsla. Tobias Harris var atkvæðamestur í liði Philadelphia með 21 stig og þrettán fráköst. Ben Simmons skoraði þrettán stig og tók tólf fráköst en fór illa að ráði sínu á vítalínunni undir lokin. Leikmenn Washington brutu þá viljandi á honum til að senda hann á vítalínuna og það herbragð gaf góða raun.

Bradley Beal skoraði 21 stig fyrir Washington og Russell Westbrook var einu sinni sem oftar með þrefalda tvennu; nítján stig, 21 frákast og fjórtán stoðsendingar. Westbrook hitti aðeins úr þremur af nítján skotum sínum utan af velli en skoraði þrettán stig úr vítum. Rui Hachimura átti góðan leik fyrir Washington; skoraði tuttugu stig og tók þrettán fráköst. 

Utah Jazz vantar aðeins einn sigur til að komast áfram í undanúrslit Vesturdeildarinnar eftir að hafa unnið Memphis Grizzlies, 113-120.

Donovan Mitchell skoraði þrjátíu stig fyrir Utah sem hefur unnið þrjá leiki í röð eftir að hafa tapað fyrsta leiknum í einvíginu. Jordan Clarkson skoraði 24 stig fyrir Utah.

Hjá Memphis var Ja Morant með 23 stig og tólf stoðsendingar. Jaren Jackson og Dillon Brooks skoruðu 21 stig hvor.

Úrslitin í nótt

  • Washington 122-114 Philadelphia
  • Memphis 113-120 Utah

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×