Körfubolti

NBA dagsins: Jazzarar ætla ekki að brenna sig á því sama og í búbblunni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mike Conley og Jordan Clarkson fagna í Memphis í nótt.
Mike Conley og Jordan Clarkson fagna í Memphis í nótt. getty/Justin Ford

Utah Jazz ætlar ekki að endurtaka mistökin frá því í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar í NBA-deildinni í fyrra.

Utah sigraði Memphis Grizzlies, 113-120, í nótt og komst þar með í 3-1 í einvígi liðanna. Utah var einnig 3-1 yfir í einvíginu gegn Denver Nuggets í úrslitakeppninni í fyrra en tapaði þremur síðustu leikjunum og féll úr leik.

„Við munum að sjálfsögðu eftir tilfinningunni frá síðasta tímabili og viljum ekki upplifa hana aftur,“ sagði Mike Conley, leikstjórnandi Utah. 

„Vonandi höldum við einbeitingu og köstum þessu ekki frá okkur eins og í fyrra. Við þurfum að klára dæmið á heimavelli og held að við séum staðráðnir í því,“ bætti Conley við. 

Í fyrra fór úrslitakeppnin öll fram í svokallaðri búbblu í Orlando án áhorfanda. Núna verður Utah hins vegar með heimavallarrétt í öllum einvígum þar sem liðið var með bestan árangur í NBA í vetur.

Donovan Mitchell virðist vera búinn að jafna sig af meiðslum og skoraði þrjátíu stig fyrir Utah í nótt. Jordan Clarkson, besti sjötti leikmaður tímabilsins, skoraði 24 stig og Rudy Gobert var með sautján stig og átta fráköst.

Ja Morant fór fyrir Memphis með 23 stigum og tólf stoðsendingum. Dillon Brooks og Jaren Jackson skoruðu 21 stig hvor.

Í spilaranum hér fyrir neðan má sjá brot úr leik Memphis og Utah sem og leik Washington Wizards og Philadelphia 76ers auk flottustu tilþrifa leikjanna tveggja.

Klippa: NBA dagsins 1. júní

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×