Yair Lapid, leiðtogi miðjuflokksins Yesh Atid, tilkynnti fyrir stuttu að átta flokkar muni mynda saman stjórn. Stjórnarfyrirkomulaginu verður þannig háttað að flokkarnir munu skiptast á að stjórna embættum og mun Naftali Bennett, formaður Yamina flokksins, verða fyrsti forsætisráðherra ríkisstjórnarinnar áður en Lapid tekur við embættinu seinna á kjörtímabilinu.
Áður en ríkisstjórnin tekur til starfa þarf ísraelska þingið að samþykkja hana með atkvæðagreiðslu.
Lapid segir í yfirlýsingu að hann hafi tilkynnt Reuven Rivlin, forseta Ísraels, um stjórnarmyndunina.
„Ég heiti því að þessi ríkisstjórn mun starfa í þágu ísraelskra borgara, þeirra sem kusu okkur og þeirra sem kusu okkur ekki.“
Hann hét því jafnframt að meirihlutinn muni bera virðingu fyrir stjórnarandstöðunni og gera allt sem í sínu valdi stæði til þess að sameina alla hluta ísraelsks samfélags.
Lapid og Bennett munu fara fyrir ríkisstjórninni og mun Lapid taka við embætti forsætisráðherra þann 27. ágúst 2023. Rivlin forseti hefur boðað þingfund og mun þingið koma saman eins fljótt og auðið er til þess að greiða atkvæði um ríkisstjórnina.
Þeir flokkar sem eru í samsteypustjórninni eru eftirfarandi: Yesh Atid, Kahol Lavan, Israel Beiteinu, Labor, Yamina, New Hope, Meretz og Ra‘am.
Mistakist flokkunum að hljóta kjör þingsins til að starfa sem ríkisstjórn mun þurfa að boða til fimmtu þingkosninganna á tveimur árum.