Samkvæmt heimildum Reuters varð sprengingin þegar herlið í Akkar var að dreifa eldsneyti úr eldsneytistanki sem það hafði gert upptækan til íbúa. Mikill eldsneytisskortur ríkir í Líbanon um þessar mundir.
Ríkismiðill Líbanons hefur sagt að sprengingin hafi orðið vegna átaka íbúa Akkar sem eiga að hafa barist um eldsneyti úr tankinum.
Sprengingin varð kveikja að mótmælum í Líbanon en íbúar eru langþreyttir á ástandinu í landinu. „Kveikt var í Akkar af fulltrúum þess á þingi,“ var krotað á vegg heimilis forsætisráðherra landsins.
Einungis rúmt ár er síðan gríðarleg sprenging varð í Beirút, höfuðborg Líbanons. „Fjöldamorðið í Akkar er ekkert öðruvísi en fjöldamorðið við höfnina,“ segir Saad al-Hariri, fyrrverandi forsætisráðherra landsins á Twitter og kallar eftir því að yfirvöld í landinu segi af sér.