Tæplega 1.300 manns í það minnsta fórust í jarðsjálfta af stærðinni 7,2 sem reið yfir Haíti á laugardag. Þúsundir íbúðarhúsa og bygginga eru rústir einar og innviðir liggja í lamasessi í eyríkinu sem glímir enn við afleiðingar mannskæðs jarðskjálfta fyrir ellefu árum og morðsins á forseta landsins í síðasta mánuði.
Ekki bætir úr skák að hitabeltisstormurinn Grace stefnir nú á Hispanjólu, eyjuna sem Haítar deila með nágrönnum sínum í Dóminíska lýðveldinu. Veðurspár gera ráð fyrir að stormurinn gangi meðal annars beint yfir þau svæði sem urðu verst úti í skjálftanum. Spáð er úrhellisrigningu með hættu á skyndiflóðum og aurskriðum.
Reuters-fréttastofan segir að flugvöllurinn í höfuðborginni Port-au-Prince hafi verið fullur af sjúkraliðum og hjálparstarfsmönnum í dag. Stöðugur straumur flugvéla flytur mannskap og hjálpargögn til landsins.
Vandasamt er að koma hjálparstarfsmönnum og vistum að hamfarasvæðinu í kringum borgina Les Cayes. Í þeim pólitíska glundroða sem hefur ríkt á Haíti undanfarna mánuði hafa glæpagengi náð yfirráðum yfir ýmsum stofnleiðum um landið. Sameinuðu þjóðirnar hafa kallað eftir því að mannúðaraðstoð fái að flæða óhindrað inn á jarðskjálftasvæðið.
Ariel Henry, forsætisráðherra, segir aukinn kraft nú lagðan í að koma hjálpargögnum til nauðstaddra enda megi nú engan tíma missa.
Hætta á að sjúkdómar fari á kreik
Í Les Cayes eru sjúkrahús yfirfull en sum þeirra urðu fyrir miklum skemmdum í jarðskjálftanum. Stöðugur straumur sjúkrabíla hefur legið að flugvellinum í borginni með sjúklinga sem flytja þarf með flugvélum til aðhlynningar annars staðar.
Björgunar- og leitarflokkar vinna enn að því að draga lík úr rústum bygginga. Bandaríkin sendu meðal annars 65 manna rústabjörgunarsveit með sérhæfðan búnað til að hjálpa til við leitar- og björgunarstarfið.
Fjölmargir sem misstu heimili sín í jarðskjálftanum um helgina sofa nú undir berum himni. Yfirvöld óttast að þar verði þeir upp á náð og miskunn náttúruaflanna komnir þegar stormurinn gengur yfir. Hættan á því að sjúkdómar eins og kólera sem berast með vatni fari á kreik er talin fara vaxandi líkt og gerðist eftir stóra skjálftann árið 2010 sem varð um 200.000 manns að bana.