Þorvaldur ræddi við Ríkharð Óskar Guðnason, Rikka G, um það sem átti sér stað í leik KR og Víkings er liðin mættust í Frostaskjóli á sunnudag. Undir lok leiks sauð einfaldlega allt upp úr og brutust út slagsmál milli leikmanna liðanna.
„Það er ekki eins og maður flauti af eftir svona leik, poppi og hafi gaman. Ætli ég hafi ekki sofnað hálf sex í nótt og ég skal bara viðurkenna að það er ekki auðvelt að koma heim til átta ára drengsins síns – sem er mikill fótboltaáhugamaður - og útskýra það sem fór fram þarna. Ætla að vona að ég þurfi aldrei að gera það aftur.“
„Stutta svarið, já. Ég er ennþá að hugsa,“ sagði Þorvaldur aðspurður hvort hann hefði hugsað af hverju hann væri að standa í þessu eftir allan hamaganginn vestur í bæ.
„Við sjáum til með það,“ var svarið er Rikki spurði hvort Þorvaldur yrði ekki áfram dómari á næstu leiktíð.
„Formaður dómaranefndar er dómari og var á vellinum fyrir tveimur eða þremur árum síðan og þekkir þetta þannig hann hringir og hjálpar en stundum er nóg komið og það er bara eitthvað sem maður þarf að gera upp við sig með tíð og tíma.“
„Ég er settur á leik en við sjáum til hvort ég dæmi,“ sagði Þorvaldur að endingu aðspurður hvort hann væri skráður á leik í lokaumferð Pepsi Max deildarinnar sem fram fer næsta laugardag.

Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.