Körfubolti

Segist hafa verið neyddur í bólusetningu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Andrew Wiggins má spila heimaleiki Golden State Warriors eftir að hafa látið bólusetja sig fyrir kórónuveirunni.
Andrew Wiggins má spila heimaleiki Golden State Warriors eftir að hafa látið bólusetja sig fyrir kórónuveirunni. getty/Jose Carlos Fajardo

Andrew Wiggins, leikmaður Golden State Warriors, segist hafa verið neyddur til að bólusetja sig gegn kórónuveirunni til að geta haldið áfram að spila í NBA-deildinni í körfubolta.

NBA hafði áður hafnað beiðni Wiggins um að neita bólusetningu af trúarlegum ástæðum. Hann hefur lýst yfir efasemdum um gagnsemi bóluefna. Wiggins hefur þegar fengið kórónuveiruna og sagði að það hefði ekki verið svo slæmt.

„Ég veit um fullt af fólki sem hefur fengið alls konar viðbrögð og orðið fyrir meiðslum eftir bólusetningu svo ég veit ekki hvað þetta gerir við mig eftir tíu ár,“ sagði Wiggins eftir fyrsta æfingaleik Golden State á undirbúningstímabilinu gegn Portland Trail Blazers í gær.

„Mér líður eins og ég gæti talað endalaust um af hverju ég vildi ekki láta bólusetja sig. Aðalatriðið er að ég veit ekki hvað þetta gerir við líkamann minn eftir tíu til tuttugu ár.“

Wiggins gaf sig þó að lokum enda hefði hann misst af öllum heimaleikjum Golden State á tímabilinu ef hann hefði ekki látið bólusetja sig. Allir sem eru eldri en tólf ára þurfa að láta bólusetja sig til að mega sækja stóra atburði innanhús í San Francisco.

„Einu möguleikarnir voru að fara í bólusetningu eða spila ekki í NBA,“ sagði Wiggins. Hann sagðist hafa fengið smávægilega beinverki og verið kalt eftir bólusetninguna. Wiggins skoraði þrettán stig í leiknum gegn Portland sem Golden State vann, 107-121.

„Það var gott að spila en að fara í bólusetningu, ég mun hugsa lengi um það. Ég vildi það ekki en var neyddur til þess.“

Wiggins, sem er 26 ára, gekk í raðir Golden State frá Minnesota Timberwolves í fyrra. Kanadamaðurinn var valinn fyrstur í nýliðavalinu 2014 og var valinn nýliði ársins í NBA tímabilið 2014-15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×