Keflavík og Stjarnan unnu bæði leik sinn í fyrstu umferðinni en tókst þá ekki að klára leikinn fyrr en í framlengingu.
Það var búist við sigrum hjá þeim báðum þá en í kvöld er fyrsti leikur þeirra á móti liði sem er búist við að keppi við þau um toppsætin í vetur.
Leikur Keflavíkur og Stjörnunnar hefst klukkan 20.15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Strax á eftir verður síðan öll umferðin gerð upp í Körfuboltakvöldi með Kjartani Atla Kjartanssyni og sérfræðingum hans.
Báðir leikir Keflavíkur og Stjörnunnar í fyrra voru svolítið sérstakir enda voru gestaliðin rassskellt í báðum tilfellum.
Stjörnumenn byrjuðu á því að vinna 40 stiga sigur á Keflavík í janúarlok, 115-75, en Keflvíkingar svöruðu því með því að vinna Stjörnuna með 19 stigum á heimavelli sínum í apríl, 100-94.
Stjarnan var komin 36 stigum yfir í hálfleik í Ásgarði (66-40) og Keflvíkingar voru 18 stigum yfir í hálfleik á Sunnubrautinni (59-41).
Bæði lið eru mætt á ný til leiks með augun á Íslandsmeistaratitlinum, titlinum sem Keflavíkur hefur ekki unnið í þrettán ár og Stjörnumenn aldrei.
Nú er bara að vona að liðin haldi leiknum í kvöld áfram spennandi fram í seinni hálfleikinn.