Njarðvík vann stórsigur á Skallagrím í Subway-deild kvenna í körfubolta í kvöld en lokatölur leiksins urðu 31-86
Fyrir leikinn voru liðin á sitthvorum enda töflunnar, Njarðvík eitt af þremur liðum deildarinnar sem var með fullt hús stiga á meðan Skallagrímur sat sem fastast á botninum án stiga.
Það var ljóst strax í byrjun leiks að Njarðvík myndi vera með yfirhöndina. Skallagrímur var með sex stig þegar komið var á 5. mínútu leiksins en eftir það fékk liðið ekki stig fyrr en á 13. mínútu.
Á þeim kafla náði Njarðvík góðu forskoti sem jókst bara eftir því sem leið á leikinn. Staðan í hálfleiknum var 15-41.
Í byrjun seinni hálfleiksins gengu gestirnir í Njarðvík berserksgang þar sem Vilborg Jónsdóttir fór á kostum. Hún stal hverjum boltanum á fætur öðrum og setti sjálf niður nokkra tvista og forysta gestanna jókst hratt og örugglega. Fyrstu stig Skallagríms í síðari hálfleiknum komu ekki fyrr en á 29. mínútu en þá setti Nikola niður tvö skot af vítalínunni.
Leikurinn spilaðist síðan á svipaðan hátt í síðasta leikhlutanum og voru lokatölur síðan 31-86 og því 55 stiga munur liðunum.
Af hverju vann Njarðvík?
Þegar allt kemur til alls þá eru gæði leikmanna Njarðvíkur örlítið meiri heldur en leikmanna Skallagríms. Það sást á köflum í þessum leik þó svo að Njarðvík hafi ekki átt sinn besta leik.
Hverjar stóðu upp úr?
Vilborg Jónsdóttir var mjög góð í liði Njarðvíkur sem og Levína De Silva en hún var stigahæst hjá Njarðvík með 16 stig.
Hvað fór illa?
Hvorugt liðið átti sinn besta leik í kvöld en bæði lið áttu til dæmis mikið af töpuðum boltum sem og loftskotum. Svo virtist vanta svolítið upp á sjálfstraustið hjá leikmönnum Skallagríms en það eflaust skiljanlegt þar sem lítið hefur gengið upp í byrjun tímabilsins.
Hvað gerist næst?
Þann 3.nóvember fær Njarðvík granna sína í Keflavík í heimsókn á meðan Skallagrímur fer í heimsókn til Grindavíkur.