Körfubolti

Bolarnir börðust til enda en baulað á Boston

Sindri Sverrisson skrifar
DeMar DeRozan og Al Horford í baráttu um boltann í Boston í nótt.
DeMar DeRozan og Al Horford í baráttu um boltann í Boston í nótt. AP/Michael Dwyer

Chicago Bulls fengu aðeins á sig 11 stig í lokaleikhlutanum, en skoruðu 39, gegn Boston Celtics í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Bolarnir tryggðu sér 128-114 sigur eftir að hafa verið 19 stigum undir seint í þriðja leikhluta.

Tímabilið heldur því áfram að ganga vel hjá Chicago sem er með besta sigurhlutfallið af öllum liðum deildarinnar nú þegar liðið hefur unnið sex af fyrstu sjö leikjum sínum.

DeMar DeRozan átti stóran þátt í sigrinum í nótt en hann skoraði 37 stig. Zach LaVine skoraði 26 og Nikola Vucevic skoraði 11, tók 10 fráköst og gaf 9 stoðsendingar.

Boston var 94-75 yfir þegar um þrjár mínútur voru eftir af þriðja leikhluta og liðið var enn fjórtán stigum yfir fyrir síðasta leikhlutann, 103-89. Þá skoraði Chicago hins vegar 12 stig í röð, minnkaði muninn í 103-101, og hafði enn átta mínútur til að tryggja sér að lokum öruggan sigur.

„Það var ofboðslega gott að sjá hvernig við héldum áfram að berjast. Við vorum langt undir, á erfiðum útivelli, en urðum ekki of órólegir,“ sagði DeRozan.

Jaylen Brown skoraði 28 stig fyrir Boston en liðið hefur nú tapað þremur leikjum í röð og mátti þola baul frá áhorfendum í leikslok.

Úrslitin í nótt:

  • Charlotte 110-113 Cleveland
  • Indiana 131-118 San Antonio
  • Philadelphia 113-103 Portland
  • Atlanta 118-111 Washington
  • Boston 114-128 Chicago
  • New York 104-113 Toronto
  • Memphis 106-97 Denver
  • Minnesota 97-115 Orlando
  • LA Clippers 99-94 Oklahoma
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×