Fótbolti

Birkir Már hættur með lands­liðinu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Birkir Már Sævarsson (nr. 2) fagnar hér marki Íslands í kvöld. Hann hefur nú lagt landsliðsskóna á hilluna.
Birkir Már Sævarsson (nr. 2) fagnar hér marki Íslands í kvöld. Hann hefur nú lagt landsliðsskóna á hilluna. EPA-EFE/NAKE BATEV

Birkir Már Sævarsson spilaði sinn síðasta leik fyrir íslenska landsliðið í 3-1 tapi Íslands gegn Norður-Makedóníu í lokaleik undankeppni HM 2022. Þetta staðfesti Birkir Már í viðtali við RÚV eftir leik.

„Það er alveg hægt að finna fullt af jákvæðum hlutum í leiknum þegar maður skoðar hann aftur. Það er samt erfitt fyrir mig að greina leikinn svona strax að honum loknum,“ sagði Birkir Már um leik kvöldsins.

„Það gekk erfiðlega að halda boltanum í fyrri hálfleik og þeir fóru auðveldlega í gegnum okkur. Í seinni hálfleik vorum við betri, fram að markinu þeirra en þá duttum við niður aftur. Svo þegar við misstum Ísak Bergmann (Jóhannesson) af velli þá var þetta brekka.“

„Nei ég var búinn að segja við Arnar (Þór Viðarsson, landsliðsþjálfara) að ég myndi hætta. Þetta var síðasti leikurinn minn,“ sagði Birkir Már aðspurður hvort hann myndi áfram gefa kost á sér.

Þessi magnaði leikmaður lék alls 103 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og fór með liðinu á EM í Frakklandi sumarið 2016 og HM í Rússlandi tveimur árum síðar.

„Held það sé erfitt að sleppa Englandsleiknum. Hann hefur alltaf staðið upp úr,“ sagði Birkir Már Sævarsson að endingu varðandi sinn uppáhalds landsleik.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×