Á vettvangi stjórnmálanna hefur umræðan um bráðavanda íslenskra fjölmiðla snúist um hvernig skuli deyfa einkennin fremur en að lækna sjúkdóminn. Svo virðist sem ráðamönnum þyki ógerlegt að koma böndum á erlenda tæknirisa og þeir forðast eins og heitan eldinn að styggja Ríkisútvarpið sem leikur lausum hala á auglýsingamarkaði.
Hvernig snúum við vörn í sókn þegar fullreynt er að bíða eftir stjórnvöldum? Rótgrónum fjölmiðlafyrirtækjum úti í heimi hefur tekist að breyta viðskiptalíkani sínu þannig að þau reiða sig í sífellt meiri mæli á stafrænar áskriftartekjur. Stafrænum áskriftum fjölgar gríðarlega í hverjum mánuði hjá The New York Times sem var áður rekið með tapi en er nú orðinn arðbær fjölmiðill. Fjölmörg dæmi um slíkan viðsnúning má finna í nágrannalöndum okkar.
Lærdómurinn er sá að fólk er reiðubúið að greiða fyrir vandaðar umfjallanir og afþreyingu sem hefur upplýsingagildi. Þessi lærdómur er meginástæðan fyrir því að Innherja, nýjum og sjálfstæðum áskriftarmiðli á Vísi, var komið á fót. Við ætlum ekki að eltast við fréttatilkynningar. Á síðum Innherja verður boðið upp á leiðandi umfjöllun um viðskiptalífið, efnahagsmál og innlend stjórnmál með þeim hætti að lesendur sjái hag sinn í að kaupa áskrift.
Fyrst um sinn verður aðgangur að efninu opinn. Innherji verður hins vegar í stöðugri þróun til að laga sig að kröfum lesenda og undirbúa læsingu efnisins á bak við greiðslugátt. Að læsa efni er skref sem margir fjölmiðlar munu þurfa að taka ef ætlunin er að reksturinn þeirra verði sjálfbær og að stöðva atgervisflótta í greininni. Það er meðal annars hugmyndin á bak við Innherja.
Ritstjórn Innherja