Jón Þór útskrifaðist með doktorsgráðu í hagfræði frá Stockholm School of Economics árið 2003 með áherslu á atvinnuvega- og orkuhagfræði. Áður lauk hann B.Sc. og M.Sc. prófi frá Háskóla Íslands.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá HR en ásamt því að hafa starfað hjá HÍ hefur Jón Þór gegnt stöðu dósents við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík frá árinu 2006, í hlutastarfi frá 2013, og stundað rannsóknir og kennslu á sviði fjármála og hagfræði. Einnig hefur hann veitt meistaranámi í fjármálum- og reikningshaldi forstöðu.
Var aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins
Frá 2013 til 2020 starfaði Jón Þór sem aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins, sem bar ábyrgð á eftirliti með starfsemi fjármálafyrirtækja, vátryggingarfélaga, lífeyrissjóða og starfsemi á verðbréfamarkaði. Þar bar hann meðal annars ábyrgð á varúðareftirliti með bönkum, þjóðhagsvarúð og viðbúnaði við áföllum. Þá var hann meðlimur í kerfisáhættunefnd. Jón Þór var ritstjóri Tímarits um viðskipti- og efnahagsmál um tíma og frá 2004 til 2006 gegndi stöðu dósents við Háskólann á Bifröst og starfi forstöðumanns Rannsóknaseturs verslunarinnar.
Á alþjóðlegum vettvangi hefur Jón Þór setið í stjórn Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar (EBA), verið áheyrnarfulltrúi í Evrópska kerfisáhætturáðinu (ESRB), fulltrúi í ráðgjafaráði Fjármálastöðugleikaráðsins fyrir Evrópu (FSB-RCG Europe) og þátttakandi í ýmsum norrænum nefndum á sviði fjármálaeftirlits og fjármálastöðugleika.
Haustið 2019 var hann í gestastöðu við fjármálastöðugleikastofnun Alþjóðagreiðslubankans (BIS). Að sögn HR hefur Jón Þór einnig tekið þátt í alþjóðlegu rannsóknasamstarfi, einkum á sviði orkumála og fjármálastöðugleika.