Skoðun

Fyrirsjáanleg skynsemi

Tómas Guðbjartsson skrifar

Í snúinni fimmtu bylgju Covid hefur oft verið kallað eftir fyrirsjáanleika, ekki síst frá samtökum atvinnulífsins og vissum stjórnmálamönnum. Nýlega kölluðu tveir ráðherrar eftir því að allar Covid-takmarkanir yrðu afnumdar hér á landi – allt í nafni einstaklingsfrelsis. Var óspart vísað til Dana og Norðmanna sem fyrirmynda – því þar væri lífið leikur. 

Ráðagóður Þórólfur fékk ómaklega gagnrýni, en hann, líkt og og undirritaður, vöruðu við afléttingum, ekki síst með viðkvæma stöðu Landspítala í huga. 

Til allrar hamingju voru landamæri okkar ekki opnuð upp á gátt, en því miður var látið undan miklum þrýstingi ýmissa hagsmunaaðila og öðrum takmörkunum aflétt of hratt. Afleiðingarnar blasa nú við í sögulega hárri tíðni Covid-sýkinga.

 Landspítali er enn og aftur kominn á hættustig, gjörgæsludeildir spítalans fullar upp í rjáfur og staðan bæði á smitsjúkdóma- og lungnadeild mjög þung - og þyngist daglega. Sama þróun hefur orðið í fyrirmyndarlöndunum Danmörku og Noregi, sem í skyndi hafa innleitt Covid-takmarkanir. Sunnar í álfunni hefur af illri nauðsyn þurft að grípa til mun harðari aðgerða, eins og í Þýskalandi, Austurríki og Hollandi.

 Afleiðing hárrar smittíðni hér á landi endurspeglast í þeirri staðreynd að önnur ríki vara nú þegna sína við ferðalögum til Íslands. Er þetta fyrirsjáanleikinn sem ferðaþjónustan og samtök atvinnurekanda voru að auglýsa eftir, og það frá sjálfum ráðherra málaflokksins? Orðum fylgir ábyrgð.

Það verður að teljast skrítið að ráðherrar skuli stíga fram undir formerkjum einstaklingsfrelsis og afnema takmarkanir sem eru nauðsynlegar og settar á með mannúð og hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Skoðanaskipti eiga vissulega rétt á sér, en ráðherrar verða að gæta orða sinna og varast að berja í falskar pólitískar bumbur. Skynsemi er nefnilega merkilega fyrirsjáanleg.

Höfundur er yfirlæknir á skurðsviði LSH og prófessor við læknadeild HÍ.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×