Staples Center er mögulega sú höll sem flestir aðdáendur NBA-deildarinnar kannast við enda hver Lakers-goðsögnin á fætur annarri orðið til þar. Nú hefur verið ákveðið að selja nafnið á leikvanginum til hæstbjóðanda.
Frá og með jóladegi mun höllin heita Crypto.com Arena eða Rafmynt.is Höllin á ástkæra ylhýra. Í frétt LA Times um málið segir að eigendur Crypto.com borgi litlar 700 milljónir Bandaríkjadala fyrir nafnið. Gildir samningurinn til 20 ára. Er þetta einn stærsti samningur sinnar tegundar frá upphafi.
Verður nafnið opinbert er Brooklyn Nets heimsækja Los Angeles Lakers á jóladag. Crypto.com mun einnig verða opinber styrktaraðili bæði Lakers og LA Kings, íshokkí lið Los Angeles.
Staples Center in Los Angeles to be renamed https://t.co/soilk9RTxX Arena beginning Dec. 25, per @ShamsCharania pic.twitter.com/bHE4wGXTFR
— Bleacher Report (@BleacherReport) November 17, 2021
Lakers eru í smá brekku í NBA-deildinni um þessar mundir en LeBron James og félagar eru í 7. sæti Vesturdeildar með 8 sigra og 7 töp að 15 leikjum loknum.