Innlent

Muna ekki eftir ró­legri Þor­láks­messu: „Við vorum mjög sáttir með daginn“

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Fólk virðist hafa verið fyrr á ferðinni þetta árið.
Fólk virðist hafa verið fyrr á ferðinni þetta árið. Vísir/Vilhelm

Lítil umferð var á höfuðborgarsvæðinu í dag en lögreglan segir að fáir hafi verið á ferli miðað við það sem almennt mætti gera ráð fyrir á Þorláksmessu. Færð hafi verið góð og almenningur hafi líklega verið fyrr á ferðinni í jólaundirbúningi þetta árið.

Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að dagurinn hafi gengið vonum framar. Færri hafi verið á ferðinni en búist var við og lítið var um umferðaróhöpp. Rólegt hafi verið yfir. Aðspurður segist hann ekki viss hvað valdi en faraldurinn gæti hafa sett strik í reikninginn.

„Það er töluverður fjöldi kominn bæði í sóttkví og einangrun þannig að það getur hugsanlega haft einhver áhrif. Síðan virðist almeningur bara hafa tekið jólin snemma og klárað ýmsa hluti. Við munum ekki eftir svona rólegum degi miðað við Þorláksmessu. Við vorum mjög sáttir með daginn,“ segir Árni.

Hann segir að færðin hafi einnig verið með besta móti. Engin hálka hafi verið og þurrt á götunum. Þorláksmessa hafi jafnan verið mjög erilsamur dagur í umferðareftirliti og varðstjórinn segir daginn hafa komið skemmtilega á óvart en margt geti breyst þegar að kvölda tekur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×