Við hefðbundnar kringumstæður er Falcon 9 eldflaugum lent aftur á jörðinni en það var ekki hægt í þessu tilfelli. Eldflaugin bar Deep Space Climate Observatory-gervihnöttinn út í geim en honum þurfti að koma í um milljón kílómetra fjarlægð frá jörðu, á svokallaðan Lagrange punkt-1.
Lagrange-punktar eru sérstakir kyrrstöðupunktar sem verða til út frá þyngdarkrafti tveggja fyrirbæra sem hafa sömu þyngdarmiðjuna, eins og það er orðað á Vísindavefnum. Í þessu tilfelli eru fyrirbærin sólin og jörðin.
James Webb geimsjónaukinn lauk í vikunni ferðalagi sínu til Lagrange punkts-2.
Sjá einnig: James Webb kominn á áfangastað
Áhugasamir geta kynnt sér Lagrange-punktana frekar og á myndrænan hátt hér á vef NASA.
Þetta var í fyrsta sinn sem SpaceX sendi farm svo langt út í geim.
Vegna þess hve langt þurfti að koma DSCO var ekki hægt að lenda eldflauginni aftur. Þó eldflaugin hafi farið langt, fór hún ekki nógu langt til að komast undan þyngdarafli jarðarinnar og tunglsins og hefur verið á ferð um svæðið frá 2015.
Nú virðist þeirri ferð vera að ljúka.
Jonathan McDowell er stjarnfræðingur við Harvard-háskóla. Hann segir brotlendinguna áhugaverða en ekkert merkilega.
For those asking: yes, an old Falcon 9 second stage left in high orbit in 2015 is going to hit the moon on March 4. It's interesting, but not a big deal.
— Jonathan McDowell (@planet4589) January 25, 2022
Í nýlegri grein á vef Ars Technica segir að sérfræðingar telji að eldflaugin muni brotlenda á tunglinu þann 4. mars. Ekki er talið að brotlendingin verði sjáanleg frá jörðinni þar sem eldflaugin mun líklegast skella á bakhlið tunglsins, um miðbaug þess.
Gervihnettir sem eru á braut um tunglið gætu þó aflað upplýsinga um brotlendinguna, þó þeir muni líklega ekki fanga brotlendinguna sjálfa.
Eldflaugin er um fjögur tonn að þyngd og ætti að skella á tunglinu á um 2,58 kílómetra hraða á sekúndu.