Umfjöllun og viðtöl: Vestri - Þór Þ. 81-101 | Ekki nóg að vera góðir í tuttugu mínútur

Ragnar Heiðar Sigtryggsson skrifar
Davíð Arnar Ágústsson og félagar í Þór Þ. gerðu góða ferð á Ísafjörð.
Davíð Arnar Ágústsson og félagar í Þór Þ. gerðu góða ferð á Ísafjörð. vísir/bára

Vestri og Þór frá Þorlákshöfn mættust á Ísafirði nú í kvöld í Subway-deild karla. Leikurinn byrjaði vel og stefndi í mikla spennu framan af en í hálfleik tóku Þórsarar völdin og sigldu þessu heim með sanngjörnum 2o stiga sigri, 81-101.

Leikurinn byrjaði eins og áðursagði af krafti og voru Vestramenn ekkert að sýna íslandsmeisturunum of mikla virðingu en þeir leiddu þegar 1. leikhluta var lokið, 21-18 og var þar Marko sem fór fyrir sínum mönnum í Vestra með níu stig.

Það var svo í öðrum leikhluta að Massarelli hóf ótrúlegan þriggja stiga kafla sinn sem entist út leikinn, en hann hitti þegar upp var staðið úr 9 af 11 þriggja stiga skotunum sínum, komu þrjú þeirra í öðrum leikhluta og tryggði að Þór fór inn í hálfleikinn með þriggja stiga forskot.

Í þriðja leikhluta sýndu gestirnir frá Þorlákshöfn hvað í þeim býr og tóku yfir leikinn, fóru að spila betri vörn og hlutirnir héldu áfram að ganga hjá Massarelli, sem setti aðrar þrjá þrista í leikhlutanum og skilaði það sér í að Þór vinnur þriðja leikhluta með tíu stigum og róðurinn orðinn þungur hjá Vestra.

Í fjórða leikhluta létu Þórsarar kné fylgja kviði og héldu áfram að setja niður þrista eins og ekkert væri sjálfsagðara og enda þeir á að setja niður 30 stig og tryggja sér 20 stiga sigur, 81-101.

Af hverju vann Þór?

Þórsarar einfaldlega settu í næsta gír eftir jafnan fyrri hálfleik og keyrðu á Vestra, Massarelli var þar fremstur í flokki og setti niður hvern þristinn af fætur öðrum. Einnig er vert að benda á að bekkurinn hjá Þór skilar 41 stigi á meðan bekkurinn hjá Vestra kemur aðeins með fjögur stig.

Hverjir stóðu upp úr?

Það er auðvelt að velja Massarelli eftir alla þessa þrista sem fóru niður, ellefu skot og níu niður. Hinsvegar voru margir aðrir hjá Þór góðir, Watson, Rutkauskas og Mortensen allir með yfir 20 framlagspunkta. Hérna verðum við að nefna líka Marko sem reyndi hvað hann gat að halda Vestra í þessum leik og var með 30 framlagspunkta, flesta hjá báðum liðum.

Hvað gekk illa?

Vestri átti erfitt með að koma boltanum niður, eru ekki með nægilega góða skotnýtingu í kvöld og það telur þegar upp er staðið. 39% nýting gegn 54% hjá Þór var einfaldlega ekki nógu gott gegn jafn sterku liði og Þór er.

Hvað gerist næst?

Það er ekki langt í næsta leik hjá liðunum en á fimmtudaginn kemur spilar Vestri við Val á heimavelli, hefst leikurinn klukkan 19:15 en Þór spilar sinn annan útileik í röð þegar þeir fara í Breiðholtið og spila gegn ÍR á föstudaginn kl. 18:15.

Pétur Már: Vorum einfaldlega ekki góðir í seinni

„Við vorum góðir í fyrri hálfleik og gefum þetta svo frá okkur í þeim seinni“ sagði Pétur eftir leik sinna manna við Þór. „Þeir sýndu það bara hérna í kvöld afhverju þeir eru Íslandsmeistarar, þetta er hörku lið og erfitt að spila við, þú þarft að eiga góðar 40. mín ef þú ætlar að fá eitthvað út úr svona leik“ sagði svekktur Pétur að leik loknum.

Lárus: Keyrðum á þá í seinni

Lárus Jónsson, þjálfari Þórs var að vonum sáttari en kollegi hans Pétur eftir leik kvöldsins. Spurður að því hvað gerðist í seinni hálfleik sagði hann „við keyrðum bara á Vestra og skotnýtingin var góð, Vestri voru flottir í fyrri en við náðum að keyra á þetta í þeim seinni“

„Við ætlum bara að stoppa á Húsinu, fá okkur að borða og skella okkur svo heim“ sagði Lárus rétt áður en hann hélt út í rútu, en langt ferðalag er framundan heim í Þorlákshöfn.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira