Skoðun

Ó­sýni­legu björgunar­sveitirnar

Halla Hrund Logadóttir skrifar

Það er lægð yfir landinu. Óveður í aðsigi. Almannavarnir lýsa yfir hættustigi. „Bindið lausamuni“. „Verið ekki á ferli,“ ómar í fréttum. Dimmir dagar og nætur febrúar stormsins renna í eitt og landinn dregur sig í skel.

Um leið og það hægist á samfélaginu um stund fer neyðarsamstarf raforkukerfisins hins vegar á hæsta snúning. Vandaðar áætlanir um aðgerðir ef vindar herja á raflínur og mannvirki sem flytja ljós á hvert heimili eru vaktar úr dvala. Mannskapur er ræstur út, þvert yfir landið, til að vera klár ef eitthvað fer úrskeiðis. Varabirgðir í formi afls eru færðar til á milli byggða eftir ígrunduðu áhættumati. Allt þaulskipulagt og byggt á margra ára reynslu af því að takast á við dagana þar sem Ísland stendur undir nafni: Þegar vetur konungur hnyklar vöðvana og sýnir hver ræður.

Oftast finnum við lítið fyrir þessari metnaðarfullu neyðarþjónustu raforkukerfisins. Flestu er nefnilega hægt að bjarga áður en í óefni er komið. Sums staðar eru veðravítin þó einstök eða raforkukerfið berskjaldaðra en annars staðar. Stundum dansa loftlínur í vindstrengjum á meðan aðrar hvíla í skjóli í jörðu. Sum byggðarlög og bæir eru einnig betur tengdir en önnur, sem stöðugt verkefni er að útfæra og þróa. En þegar rafmagnið slær út með hvelli, á dimmum degi eins og í vikunni, þá er sama hvar og hver staðan er; neyðarkallinu er svarað. Það eru tugir einstaklinga á vaktinni. Fyrir okkur. Og vinna samstillt að því að ljósin logi í gegnum óveðrið á hverju heimili landsins, eða komist hratt á aftur ef illa fer.

Þessar hetjur óveðranna eru sjaldan í fjölmiðlum. Þær vinna verk sín af metnaði og elju, bæði í stjórnstöðvum kerfis- og dreifiveitna um allt land, og ekki síst á vettvangi við erfiðar aðstæður í veðurofsa um langa hríð. Þær eru ósýnilegu björgunarsveitirnar sem geta dimmu í (dags)ljós breytt. Það er kjarni málsins.

Höfundur er orkumálastjóri og aðjúnkt við Harvard háskóla.




Skoðun

Sjá meira


×