„Stærsti áhrifaþátturinn í augnablikinu eru lækkanir á erlendum mörkuðum,“ segir Davíð Stefánsson, sjóðstjóri hjá Akta sjóðum um verðlækkanir í Kauphöllinni í dag. Hann rekur ástæðurnar til mögulegra átaka í Austur-Evrópu, og einnig væntinga um vaxtahækkanir og verðbólgu.
Vísitalan Stoxx Europe 600 lækkaði um allt að 2,9 prósent í morgun eftir ummæli Jake Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafa Hvíta hússins, í gær um að innrás Rússa í Úkraínu gæti hafist á næstu dögum. Eins hafði úrvalsvísitala Kauphallarinnar lækkað um meira en 2 prósent um hádegisbil.
„Lækkanir dagsins á hlutbréfum hér heima sem og á erlendum mörkuðum eru fyrst og fremst vegna stöðunnar í Úkraínu,“ segir Mogens G. Mogensen, forstöðumaður hlutabréfastýringar hjá Íslandssjóðum.
„Markaðir tóku svo að hressast fljótlega eftir hádegi,“ segir Mogens og rekur ástæðuna til fundar Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, og Vladimir Pútín forseta í dag. Lavrov hvatti forsetann til að halda áfram viðræðum við Vesturlönd um málefni Úkraínu. „Það er ávallt möguleiki til staðar,“ sagði Lavrov þegar Pútín spurði hvort hann teldi líkur á því að unnt væri að ná samkomulagi í viðræðunum.
Í kjölfarið gengu lækkanirnar að nokkru leyti til baka. Evrópska Stoxx vísitalan er 2 prósentum lægri en hún var í byrjun dags og úrvalsvísitala Kauphallarinnar lækkaði um 0,7 prósent. Þá hefur bandaríska vísitalan SP500 lækkað um 0,3 prósent það sem af er degi Vestanhafs.
Davíð hjá Akta sjóðum segir að það sem spili einnig inn í verðþróun á íslenska hlutabréfamarkaðinum séu væntingar fjárfesta um frekari sölu ríkissjóðs á Íslandsbanka „sem haldi markaðinum aftur.“
Innherji greindi í morgun frá því að Bankasýsla ríkisins, sem heldur utan um eftirstandandi 65 prósenta eignarhlut ríkissjóðs í Íslandsbanka, myndi stefna að því að selja að lágmarki svo stóran hlut í næsta áfanga söluferlisins á komandi vikum að eignarhald íslenska ríkisins færi niður fyrir helmingshlut í bankanum.
Það þýðir að ríkissjóður þarf að selja rétt rúmlega 15 prósenta hlut en sé litið til hlutabréfaverðs Íslandsbanka í dag, sem hefur hækkað um meira en 60 prósent frá skráningu bankans á markað í júní í fyrra, er slíkur eignarhlutur metinn á tæplega 40 milljarða króna.