Körfubolti

Dóttirin með stórleik og pabbinn setti niður 875 þúsund króna skot í hálfleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
NaLyssa Smith er frábær leikmaður en pabbi hennar reyndi að stela þrumunni af henni í hálfleik.
NaLyssa Smith er frábær leikmaður en pabbi hennar reyndi að stela þrumunni af henni í hálfleik. Getty/G Fiume

NaLyssa Smith átti stórleik með Baylor í bandaríska háskólakörfuboltanum um helgina en faðir hennar náði líka að koma sér í sviðsljósið í hálfleik á leiknum.

NaLyssa skoraði 37 stig í leiknum og tók að auki 11 fráköst. Hún hefur verið frábær í vetur en þetta var hennar 23. tvenna á tímabilinu.

NaLyssa átti því mikinn þátt í því að Baylor vann 91-76 sigur á Oklahoma og komst fyrir vikið í úrslitaleikinn á Big 12-mótinu. Hún hafði aldrei skoraði svona mikið í einum leik en þetta var engu að síður sjötti þrjátíu stiga leikur hennar á tímabilinu.

Í hálfleik var aftur á móti boðið upp á skotleik frá miðju og þar var heilmikið undir.

Rodney, faðir NaLyssu Smith, var greinilega orðinn sjóðheitur eftir að hafa horft á tilþrif dóttur sinnar. Hann steig fram og stóð undir ættarnafninu.

Rodney náði að setja niður skotið frá miðju og tryggja sér þar með 6.600 dollara bensínkort sem gera um 875 þúsund krónur íslenskar. Hann fagnaði líka skoti sínu vel eins og sjá má hér fyrir ofan.

Faðir NaLyssy ætti því að eiga fyrir bensíni á bílinn þegar hann fer að horfa á dóttur sína spila í Marsfári bandaríska háskólaboltans sem er fram undan á næstu vikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×