Hópsmit er komið upp í herbúðum Brann og Bergens Tidende segir frá því að félagið hafi reynt að fá leik liðsins í fyrstu umferðinni frestað þar sem aðeins tólf til þrettán leikmenn eru leikfærir vegna veirunnar.
Tvær íslenskar landsliðskonur gengu til liðs við Brann í vetur en það eru þær Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Svava Rós Guðmundsdóttir.
Branns sesongåpning står i fare etter koronautbrudd https://t.co/4pX7h9XlLI
— Bergens Tidende (@btno) March 16, 2022
Þetta er ekki bara fyrsti leikur liðsins á nýju tímabili heldur einnig fyrsti leikurinn í titilvörn og fyrsti leikurinn síðan liðið skipti um nafn, hætti að vera Sandviken og varð að Brann.
„Það er Covid-19 hópsmit í liðinu okkar. Í dag eru fimm eða sex leikmenn sýktir og um leið er óvissan mikil um alla hina,“ sagði Pål Hansen hjá Brann í samtali við Bergens Tidende.
Læknir félagsins, Christian Redisch, hefur mælt með því við norska knattspyrnusambandið að leiknum verði frestað.
„Út frá læknisfræðilegum sjónarmiðum þá vil ég ekki að leikmenn fari aftur inn á völlinn fyrr en eftir fimm til sjö daga. Það er ekki eitthvað sem ég bjó til sjálfur heldur það sem er í reglugerð norska sambandsins,“ sagði Christian Redisch við BT.