Fótbolti

Engir sénsar teknir: Sjö táningar með tvö­falt ríkis­fang í lands­liðs­hópi Argentínu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Alejandro Garnacho er í landsliðshópi Argentínu.
Alejandro Garnacho er í landsliðshópi Argentínu. Charlotte Tattersall/Getty Images

Knattspyrnusamband Argentínu ætlar sér ekki að taka neina sénsa með nokkra af efnilegri leikmönnum landsins. Margir þeirra eru með tvöfalt ríkisfang og því ætlar Argentína að vera fyrri til og tryggja sér þjónustu þeirra fari svo að þeir springi út og verði stórstjörnur.

Argentína mætir Venesúela og Ekvador í undankeppni HM á næstu dögum. Lærisveinar Lionel Scaloni hafa nú þegar tryggt sér sæti á HM í Katar síðar á þessu ári og þurfa því ekki að hafa miklar áhyggjur af þeim þremur leikjum sem eftir eru í undankeppninni.

Svo virðist sem knattspyrnusamband Argentínu hafi því tekið þá ákvörðun með Scaloni að ná efnilegum táningum sem eru með tvöfalt ríkisfang áður en Evrópulöndin sem þeir gætu einnig spilað fyrir velja þá í A-landsliðshópa sína.

Samkvæmt reglum Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, geta menn ekki spilað fyrir aðra þjóð eftir að þeir leika þrjá A-landsleiki. 

Er það eflaust ástæðan fyrir því að Alejandro Garnacho (Manchester United), bræðurnir Franco og Valentin Carboni (Inter Milan). Tiago Geralnik (Villareal), Nicolas Paz (Real Madríd) Luka Romero (Lazio) og Matías Soulé (Juventus) eru allir í landsliðshópi Argentínu en enginn þeirra hefur leikið fyrir aðallið félaganna sem þeir eru hjá.

Garnacho, Paz og Romero eru einnig með spænskt ríkisfang en hinir fjórir eru einnig með ítalskt ríkisfang.

Ásamt táningunum sjö þá eru nokkur kunnugleg nöfn í leikmannahópi Argentínu. Þar má til að mynda finna markvörðurinn Geronimo Rulli (Villareal), Nicolás Otamendi (Benfica), Lisandro Martinez og Nicolas Tagliafico (báðir hjá Ajax). Rodrigu De Paul (Atlético Madríd), Manuel Lanzini (West Ham United), Lautaro Martinez (Inter Milan), Angela Correa (Atl. Madríd) og að sjálfsögðu Lionel Messi (París Saint-Germain).

Lionel Messi er að sjálfsögðu í hópnum.Buda Mendes/Getty Images



Fleiri fréttir

Sjá meira


×