Yfirvöld í Japan hafa fordæmt vopnatilraunina, sem er bönnuð samkvæmt ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Þá segir AP fréttaveitan að mögulega standi til að sækja eldflaugina á hafsbotn svo hægt sé að greina eldflaugatækni Norður-Kóreu betur.
Undanfarnar vikur og mánuði hefur fjölmörgum eldflaugum verið skotið á loft frá Norður-Kóreu. Þann 16. mars sprakk ein slík í loft upp skömmu eftir skot en hún var einnig talin vera langdræg. Þetta var tólfta eldflaugaskotið frá Norður-Kóreu á þessu ári. Embættismenn þar halda því fram að markmiðið sé að koma gervihnetti á loft en það hefur verið dregið í efa.
Eldflaugin sem skotið var á loft í morgun er talin vera af nýrri gerð og var henni skotið í rúmlega 6.200 kílómetra hæð og lenti hún um 1.080 kílómetrum frá skotstað, samkvæmt frétt Yonhap fréttaveitunnar sem vitnar í herforingjaráð Suður-Kóreu.
Talin drífa 13 þúsund kílómetra
Eldflaugin er talin geta borið nokkur kjarnorkuvopn um þrettán þúsund kílómetra. Þetta er í fyrsta sinn frá 2017 sem Kóreumenn gera tilraun með svo langdræga eldflaug.
Kim hefur um margra ára skeið unnið að þróun kjarnorkuvopna og eldflauga til að bera þau vopn til Bandaríkjanna og annarra ríkja.
Hagkerfi Norður-Kóreu hefur orðið fyrir miklum áföllum á undanförnum árum og hafa lokanir landamæra ríkisins vegna útbreiðslu Covid gert vont ástand verra. Þrátt fyrir efnahagsvandræðin og skort á nauðsynjum hefur ríkisstjórn Kims ekkert gefið eftir í eldflaugaáætlun ríkisins.