Fótbolti

Unnu stór­sigur en misstu af loka­keppninni á einu marki

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslenska U-17 ára landsliðið í fótbolta lauk undankeppni EM með öruggum sigri á Írlandi.
Íslenska U-17 ára landsliðið í fótbolta lauk undankeppni EM með öruggum sigri á Írlandi. ksí

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta skipað leikmönnum sautján ára og yngri var aðeins einu marki frá því að komast í lokakeppni Evrópumótsins 2022.

Ísland vann stórsigur á Írlandi, 4-1, í lokaleik sínum í milliriðli undankeppni EM í dag. Íslendingar enduðu með sjö stig í riðli 1 líkt og Finnar en þær finnsku enduðu í efsta sætinu sökum hagstæðari markatölu. Finnland var með markatöluna 7-2 en Ísland 6-2.

Íslensku stelpurnar urðu því að sjá á eftir EM-sætinu þrátt fyrir að hafa ekki tapað leik í milliriðlinum.

Írar komust yfir í leiknum í Dublin í dag strax á 4. mínútu en Eyrún Embla Hjartardóttir jafnaði sjö mínútum síðar með þrumufleyg af löngu færi. Fjórum mínútum fyrir hálfleik kom Emelía Óskarsdóttir, leikmaður Kristianstad í Svíþjóð, Íslandi yfir.

Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir jók muninn í 3-1 á 79. mínútu og bætti svo öðru marki við í uppbótartíma. Lokatölur 4-1, Íslandi í vil. Á sama tíma vann Finnland Slóvakíu, 0-4, og tryggði sér þar með efsta sætið í riðlinum og farseðilinn á EM. Staðan í hálfleik var markalaus en Slóvakar gerðu fjórfalda skiptingu í hálfleik og leikur þeirra hrundi í seinni hálfleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×