Innherji

Brýnt að innleiða skýrar leiðbeiningar fyrir samstarf fyrirtækja

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Hallmundur Albertsson, meðeigandi lögmannastofunnar Deloitte Legal.
Hallmundur Albertsson, meðeigandi lögmannastofunnar Deloitte Legal.

Mikilvægt er að íslensk stjórnvöld innleiði nýjar leiðbeiningar Evrópusambandsins um samstarf fyrirtækja eins fljótt og auðið er svo að Ísland verði ekki eftirbátur samanburðarríkja. Þetta segir Hallmundur Albertsson, meðeigandi lögmannastofunnar Deloitte Legal en hann, ásamt fleiri framsögumönnum, verður með erindi á sumarfundi lögmannastofunnar um samkeppnismál sem verður haldinn í Hörpu í hádeginu.

Í samkeppnislögum er lagt bann við öllum samningum, samþykktum og samstilltum aðgerðum fyrirtækja, sem hafa það að markmiði eða leiða til þess að samkeppni er raskað. Þann 1. janúar 2021 tók hins vegar gildi lagabreyting sem felur keppinautum að meta það sjálfir hvort samningar þeirra á milli kunni að vera skaðlegir samkeppni.

„Áður þurftu fyrirtæki að sækja um undanþágu til Samkeppniseftirlitsins og voru dæmi um að óvissa um biðtíma eftir niðurstöðu kæmi í veg fyrir að fyrirtæki vildu fara þá leið. Um var að ræða löngu tímabæra breytingu enda tók sama breyting gildi í flestum Evrópuríkjum á árinu 2004,“ segir Hallmundur.

Á Íslandi má finna nokkur dæmi um samstarf af þessu tagi, til að mynda rekstur Sýnar og Nova á dreifikerfi fyrir farsímaþjónustu, og samstarf Mílu og Ljósleiðarans við lagningu ljósleiðara.

Almennt vilja fyrirtæki gera hlutina rétt en oft er matskennt hvorum megin við línuna þau eru.

Hallmundur segir að ekki sé komin mikil reynsla á nýju lögin en reynsla annarra þjóða sé jákvæð, einkum vegna þess að eftirlitsyfirvöld þurfa ekki að verja jafn miklum tíma í þessi mál sem geta verið tímafrek.

„Og það er aukinn skilningur á því að samstarf fyrirtækja, jafnvel þegar um er að ræða keppinauta, geti skilað efnahagslegum ábata og aukið hagsæld í samfélaginu,“ segir Hallmundur.

Á vettvangi Evrópusambandsins er nú unnið að því að endurskoða leiðbeiningar um samstarf fyrirtækja, einkum vegna þeirra tækniframfara sem hafa átt sér stað á síðustu 10 árum og aukinna áherslna á sjálfbærnimál. Endurskoðun reglnanna á að stuðla að því að fyrirtæki geti betur gert sér grein fyrir því hvernig samstarfi þeirra skuli háttað.

„Almennt vilja fyrirtæki gera hlutina rétt en oft er matskennt hvorum megin við línuna þau eru. Þess vegna er svo mikilvægt að leiðbeiningarnar séu skýrar svo að markaðurinn viti hvernig hann á að haga sér.“

Og í ákveðnum skilningi er verið að auka svigrúm til samstarfs, sérstaklega með tilliti til sjálfbærni og stafrænnar þróunar. „Ef fyrirtæki geta sýnt fram á samstarf geri þeim kleift að ná sjálfbærnimarkmiðum til lengri tíma litið kann það að réttlæta samstarfið. Þarna blandast pólitísk markmið við samkeppnismarkmið,“ segir Hallmundur.

Ísland hefur það að markmið að aðstæður fyrir tæknifyrirtæki séu ekki síðri hér en annars staðar og þá er mikilvægt að við séum ekki eftirbátar

Leiðbeiningarnar voru síðast endurskoðaðar árið 2011 en þær voru ekki innleiddar á Íslandi fyrr en í lok árs 2013. Nýi reglupakkinn hjá ESB tekur gildi 1. janúar 2023 eftir eins og hálfs árs umsagnarferli.

„Ég veit ekki til þess að endurskoðun sé hafin á íslenskum reglum þessu til samræmis en mikilvægt er að Ísland dragi það ekki að innleiða samsvarandi reglur hér á landi. Við höfum ekki efni á því að láta þetta sitja á hakanum“ segir Hallmundur.

„Ísland hefur það að markmið að aðstæður fyrir tæknifyrirtæki séu ekki síðri hér en annars staðar og þá er mikilvægt að við séum ekki eftirbátar, þ.e.a.s. að starfsumhverfið hér sé ekki verra en í samanburðarlöndum sem við erum að keppa við.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×