Skoðun

Verður Stóra-Sandvík eyðilögð næst?

Margrét Hugadóttir skrifar

Ein af þeim perlum sem er í hættu vegna virkjanaáforma er Stóra-Sandvík á Reykjanesi. Þetta er einstakt svæði með sjávarlóni og sandhólum, brimbrettaparadís og mikilvægur varpstaður kríunnar. Þarna tók Clint Eastwood upp Flag of Our Fathers.

Stóra-Sandvík var sett í orkunýtingarflokk í Rammaáætlun sem þýðir að þar er talið að hagkvæmara sé að virkja en að vernda. Erum við sammála því? Í bígerð er 50 MW virkjun sem er kennd við Stóru Sandvík á iðnaðarsvæði sem mun ná yfir sjálfa víkina, gígaröðina Stampa og vinsælan áfangastað ferðamanna, „Brúna milli heimsálfa“.

Sandvík á Reykjanesi.Ellert Grétarsson

Einstök náttúra Íslands er gríðarlega verðmæt. Hún er verðmæt í sjálfu sér fyrir það eitt að vera til. Hún er verðmæt fyrir þjóðina og þær kynslóðir sem munu byggja þetta land. Hún er verðmæt fyrir alla Jarðarbúa því víðerni eru af skornum skammti í heiminum. Náttúra landsins er verðmæt til útivistar, lýðheilsu og aukinna lífsgæða. Náttúran er auk þess undirstaða stærstu útflutningsgreinar okkar - ferðaþjónustu.

Eftirspurn eftir ódýrri orku er og verður alltaf mikil. Það er í raun eftirspurn sem verður seint hægt að mæta. Náttúra Íslands er takmörkuð auðlind. Viljum við eyðileggja hana fyrir megavött sem eru smá dropi í hafið og koma hvort sem ekki til með að nægja?

Sandhólar í Stóru Sandvík.Ellert Grétarsson

Á Íslandi er lögð áhersla á að selja stórnotendum raforku. Stóriðjufyrirtæki líkt og málmframleiðendur og gagnaver nota um 80 prósent orkunnar sem framleidd er á landinu. Um 5 prósent tapast í flutningskerfinu og virkjununum sjálfum. Orkutapið jafngildir raforkunotkun allra heimila í landinu, sem nota aðeins 5 prósent raforkunnar.

Hvernig væri að breyta þessari forgangsröðun?

Kynntu þér hvaða náttúruperlur eru í húfi vegna virkjunarhugmynda á náttúrukortinu.

Höfundur er verkefnastjóri hjá Landvernd.




Skoðun

Sjá meira


×