Valur og Tindastóll mætast á Hlíðarenda í kvöld þar sem það ræðst loksins hvaða lið verður Íslandsmeistari karla í körfubolta í ár, eftir hádramatíska rimmu til þessa.
Stuðningsmenn liðanna hita upp í dag á sportbarnum Ölveri og í Fjósinu á Hlíðarenda og búast má við miklum látum í kvöld.
Stólarnir jöfnuðu einvígið í 2-2 á sunnudaginn í ógleymanlegum leik sem hafði upp á allt að bjóða og áhorfendur áttu ríkan þátt í því. Þannig sköpuðu Grettismenn gríðarlega stemningu fyrir leik eins og meðfylgjandi myndband sýnir.
Spurningin er hvort að þessi stemning verði toppuð í kvöld en fólk hefur nánast slegist um miða á leikinn. Mun færri komast að en vilja en Valsmenn gáfu út að 1.000 miðar yrðu seldir til þeirra stuðningsmanna, og seldust þeir miðar upp á klukkutíma á mánudag, en 500 miðar fóru á Krókinn þar sem þeir seldust einnig strax upp í gær.
Í yfirlýsingu frá körfuknattleiksdeild Vals í gær kom reyndar fram að 192 af 1.000 miðum sem seldir voru á Hlíðarenda, til fólks sem sagðist styðja Val, hefðu í rauninni farið til stuðningsmanna Tindastóls. Það ætti því að vera nokkuð jöfn skipting af stuðningsmannahópum liðanna tveggja á leiknum.
Úrslitaleikur Vals og Tindastóls verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og verður flautað til leiks klukkan 20:15. Upphitun Kjartans Atla Kjartanssonar og félaga í Subway Körfuboltakvöldi hefst klukkustund fyrr.
Strákarnir í Boltinn lýgur ekki verða jafnframt í beinni útsendingu á X-inu 977 og hita vel upp frá klukkan 16-18. Atli Fannar Bjarkason, Jóhann Alfreð Kristinsson, Hörður Unnsteinsson verða á meðal gesta.
Subway-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Subway-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.