Um­­fjöllun og við­töl: ÍBV - Þór/KA 5-4 | Marka­­súpa í Eyjum

Einar Kárason skrifar
Kristín Erna Sigurlásdóttir kom ÍBV á bragðið í dag.
Kristín Erna Sigurlásdóttir kom ÍBV á bragðið í dag. Vísir/Vilhelm

Vel viðraði í Vestmannaeyjum þegar ÍBV vann Þór/KA í stórkostlegum níu marka leik, lokatölur 5-4 ÍBV í vil eftir að lenda 0-3 undir. Eyjastúlkur jöfnuðu metin í 3-3 en voru 3-4 undir þegar tuttugu mínútur lifðu leiks. Aftur sneri liðið leiknum sér í hag og vann 5-4 sigur í ótrúlegum leik.

Guðný, markvörður ÍBV.Vísir/Hulda Margrét

Eyjastúlkur byrjuðu leikinn af krafti og virtust líklegri til að skora fyrsta markið en eftir tæplega tíu mínútna leik var ísinn brotinn. Þar var þó ekki heimaliðið að verki heldur gestirnir þegar Sandra María Jessen fékk boltann innfyrir vörn ÍBV, lék á Guðnýju Geirsdóttur í markinu og lagði boltann í autt markið. 

Sandra var svo aftur á ferðinni tíu mínútum síðar og skoraði keimlíkt mark nema vinstra megin á vellinum í þetta skiptið. Aftur fór hún framhjá Guðnýju og markið galopið. Þrátt fyrir að ÍBV hafi verið meira með boltann og átti fleiri skot að marki komust Þór/KA þremur mörkum yfir þegar Tiffany McCarty stakk sér innfyrir, fór framhjá Haley Thomas, fyrirliða ÍBV, og skoraði með snyrtilegu skoti í hornið fjær. Hreint ótrúlegur fyrsti þriðjungur.

Haley Thomas er með fyrirliðabandið hjá ÍBV.Vísir/Hulda Margrét

Þrátt fyrir vonda stöðu lagði Eyjaliðið ekki árar í bát og héldu áfram að þjarma að gestaliðinu. Sóknarþunginn bar loks árangur á fertugustu og fyrstu mínútu þegar Olga Sevcova sendi boltann fyrir úr aukaspyrnu og Kristín Erna Sigurlásdóttir mætti eins og gammur og skallaði boltann í netið á nærstöng. 

ÍBV komið aftur inn í leikinn og þær voru ekki hættar. Í uppbótartíma í fyrri hálfleik skoraði Olga eftir samleik við Þóru Björg Stefánsdóttur. Olga fékk þá boltann á vinstri vængnum, fór framhjá varnarmanni gestanna og lét vaða að marki. Boltinn hafði viðkomu í Örnu Eiríksdóttur og þaðan fór hann yfir Hörpu Jóhannsdóttur í marki Þórs/KA og í netið. Fimm mörk komin og seinni hálfleikur framundan.

Seinni hálfleikur var enn ungur þegar ÍBV tókst að jafna leikinn. Þar var að verki miðvörðurinn Ragna Sara Magnúsdóttir sem kom boltanum í netið af stuttu færi eftir stórskotahríð að marki gestanna frá Akureyri. Við jöfnunarmarkið lifnuðu gestirnir við að nýju eftir langa og djúpa lægð en þegar tuttugu mínútur voru eftir komust Þór/KA yfir á nýjan leik. Tiffany skoraði þá sitt annað mark í leiknum með skoti utan af velli með vinstri fæti sem Guðný í markinu réð ekki við.

Gestaliðið var þó ekki lengi í paradís því fimm mínútum síðar fékk Saga Líf Sigurðardóttir beint rautt spjald fyrir háskalega tæklingu á Söndru Voitane, bakvörð ÍBV. Mögulega harður dómur en spjaldið stóð og gestirnir einum færri síðasta stundarfjórðunginn. 

ÍBV var ekki lengi að nýta sér liðsmuninn en jöfnunarmarkið kom einungis tveimur mínútum síðar. Hanna Kallmaier fékk þá boltann við vítateigslínu eftir að boltinn hafði verið skallaður út af varnarmanni gestanna. Hanna lét vaða að marki í fyrsta með beinni rist og hafnaði boltinn í samskeytunum nær. Átta mörk komin og rúmar tíu mínútur eftir af leiknum.

Harpa í marki Akureyringa varði frábærlega frá Viktoriju Zaicikovu eftir stórsókn Eyjaliðsins undir lokin. Þegar í uppbótartíma var komið kom Harpa hinsvegar engum vörnum við þegar Selma Björt Sigursveinsdóttir, sem kom inn sem varamaður á áttugustu og áttundu mínútu, skoraði af stuttu færi. 

Ameera Abdella Hussen fékk boltann inn fyrir vörnina og náði að pota boltanum að marki. Í stöngina fór boltinn og aftur út í teig þar sem Selma var fyrst á vettvang og hamraði boltann í netið úr markteig. Endurkoman fullkomnuð því ekki löngu síðar var flautað til leiksloka í hreint lygilegum knattspyrnuleik. Fimm – fjögur niðurstaðan og stigin eftir í Eyjum.

ÍBV vann magnaðan sigur í kvöld.Vísir/Bára Dröfn

Af hverju vann ÍBV?

Heimastúlkur hafa líklega spurt sig í stöðunni þrjú núll hvernig í ósköpunum hefðu þær komið sér í þá stöðu. Þær gáfust hinsvegar ekki upp og þessi tvö mörk undir lok fyrri hálfleiks gáfu byr undir báða vængi. Eftir jöfnunarmarkið kom svo annað högg með fjórða marki gestanna, en aftur gáfu Eyjastúlkur í og náðu á endanum að hrista ásinn fram úr erminni í uppbótartíma.

Hverjar stóðu upp úr?

Hverjar stóðu ekki uppúr, væri auðveldari spurning. Það voru margar á vellinum sem áttu hreint afbragðsleik. Olga Sevcova var frábær í liði ÍBV ásamt Ameeru. Hanna Kallmaier byrjaði leikinn ekki vel en þegar leið á var hún stórkostleg inni á miðri miðjunni. Þessar eru nefndar að öðrum ónefndum.

Í liði gestanna voru Sandra María og Tiffany hættulegar og virtust alltaf líklegar þegar gestirnir sóttu hratt. Saga Líf var einnig lífleg og lagði upp tvö mörk en fékk reisupassann á ögurstundu, marki yfir og stundarfjórðungur eftir.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikurinn fékk að njóta sín á kostnað varnarleiks. Tölurnar tala sínu máli. Þrátt fyrir að margir leikmenn aftarlega á vellinum hjá báðum liðum hafi átt ágætis leik þá er erfitt að hrósa varnarlínum og markvörðum sem fá á sig fimm og fjögur mörk.

Hvað gerist næst?

ÍBV á útileik við Val þann fyrsta júní í Bestu deildinni á meðan Þór/KA tekur á móti Keflavík þann sama dag.

Þetta er okkar einkennismerki

Jonathan Glenn, þjálfari ÍBV.Vísir/Vilhelm

„Ég get varla hugsað akkurat núna,“ sagði Jonathan Glenn, þjálfari ÍBV, eftir leik. 

„Það eru svo margar tilfinningar í gangi. Þær sýndu svo mikinn karakter í kvöld. Á fyrstu þrjátíu mínútunum vorum við gjörsamlega úr karakter. Eftir fyrsta þriðjung gerðum við breytingar og klórum okkur aftur inn í leikinn. Seinni hálfleikurinn var frábær af okkar hálfu. Ég er svo stoltur af þessum stelpum.“

Engin uppgjöf

„Þetta er okkar einkennismerki. Þessi karakter er eitthvað sem við erum að reyna að koma inn í höfuðið á stelpunum. Ekki bara þeim sem byrja leikinn heldur einnig þeim sem koma inn af bekknum. Þær eru mikilvægar eins og sást í dag. Þær vita að allir innan hópsins eru mikilvægir og allir þurfa að vera tilbúnir. Við þurfum alla klárar til að ná árangri.“

„Við vorum betri og hefðum getað verið þrjú núll yfir þegar þær eru þrjú núll yfir. Sandra María og Tiffany ollu okkur vandræðum. Eftir að við gerðum breytingar náðum við jafnvægi á liðið og náðum inn marki og mörkum fyrir hálfleik. Í hálfleik sagði ég þeim að vera rólegar og að við myndum ná inn öðru marki.“

Viðbúnir varamenn

„Selma (Björt Sigursveinsdóttir) er frábær. Hún vinnur mikið fyrir liðið og ég er svo ánægður fyrir hennar hönd því hún átti þetta skilið. Hún kom inn í síðasta leik og hljóp úr sér lungun og hjálpaði til að klára þann leik. Í kvöld gerir hún það sama og skorar svo sigurmarkið. Ég er svo ánægður með að geta glatt okkar fólkið okkar á Eyjunni. Ég er ánægður með að hafa getað gefið þeim svona leik og vonast til að fleiri og fleiri mæti á völlinn.“

Þetta er ótrúlega sárt og svekkjandi

Perry Mclachlan og Jón Stefán JónssonÞór/KA

Jón Stefán Jónsson, annar þjálfara Þórs/KA, var eðlilega svekktur eftir þessa rússíbanareið. 

„Þetta er ótrúlega sárt og svekkjandi. Í stöðunni 3-0 fékk ég ekki tilfinningu um að þetta væri búið. Þessi deild er svona og kannski kom smá reynsluleysi í ljós hjá okkur. Við vorum að flýta okkur 3-0 yfir í stað þess að reyna að drepa leikinn. Ef og hefði.“

„Við búum yfir miklum gæðum fram á við en við erum að lenda í meiðslum á miðvörðum og bakvörðum og þurfum að hreyfa mikið við liðinu. Það sést í dag að við erum pínu ringlaðar. Mér fannst við lagast mikið við að fara í þriggja manna vörn í seinni hálfleik.“

4-3 of snemma?

„Það er alltaf gott að skora. Vendipunkturinn er meira kannski rauða spjaldið. Þegar við lendum manni færri fannst mér við vera með leikinn í höndunum, þannig séð. Þrátt fyrir að við hefðum ekki mikið verið með boltann fannst mér ÍBV ekki vera að opna okkur á þeim tímapunkti. Þær skora svo fljótt eftir spjaldið og þá breytist allt.“

„Ég get alveg séð af hverju hann setur rautt á þetta. Leikmaðurinn minn segist hafa farið í boltann. Svo segja mér einhverjir á bekknum að þetta hafi alveg verið allaveganna appelsínugult. Leiðinlegt að koma þetta þetta klassíska svar en ég var að leiðbeina sóknarmanninum svo ég sá ekkert fyrr en hún var búin að klippa hana,” sagði Jón glottandi. ,,Enda er ég ekkert að pirra mig neitt voðalega á því. Þetta voru bara ein af þeim mistökum sem gerast í leiknum.“

Hefði sætt sig við stigið

„Algjörlega. Búnar að vera einum færri í korter og það var ekkert endilega í spilunum að þær væru að fara að skora. En er það ekki þess vegna sem við elskum þessa íþrótt? Hún er svona.“


Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira