KSÍ býður til opinnar æfingar á Laugardalsvelli klukkan 11 og hvetur stuðningsmenn til að mæta. Það hafa leikmenn íslenska liðsins einnig verið duglegir að gera á samfélagsmiðlum. Opnað verður fyrir gesti klukkan 10:30 en viðburðurinn stendur yfir til 12:30.
Íslenska kvennalandsliðið er á leiðinni á EM á Englandi og af því tilefni verður blásið til opinnar æfingar á Laugardalsvelli á laugardaginn 25. júní klukkan 11:00.
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) June 23, 2022
Við hvetjum alla stuðningsmenn og konur til að mæta og kveðja landsliðið fyrir EM!
Hliðin opna klukkan 10:30 pic.twitter.com/vVmTTUT5CT
Stuðningsmenn munu þó ekki geta fengið nýju EM-treyjuna frá Puma áritaða því samkvæmt Twitter-síðu KSÍ er treyjan ekki væntanleg til landsins fyrr en í næstu viku.
Vegna fjölda fyrirspurna: Nýja landsliðstreyjan kemur loksins í sölu í næstu viku. Fylgist með á miðlum KSÍ og á https://t.co/QljFuGYVne - verður tilkynnt um leið og hún lendir. #dóttir pic.twitter.com/dXXeNRtkKO
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) June 24, 2022
Íslenska landsliðið heldur svo af landi brott á mánudaginn og fer þá til Póllands þar sem liðið mætir heimakonum í vináttulandsleik 29. júní.
Frá Póllandi fer íslenski hópurinn áfram til Þýskalands og æfir í nágrenni höfuðstöðva Puma sem eru í Herzogenaurach. Förinni er svo heitið til Englands 6. júlí, sama dag og upphafsleikur EM fer fram á Old Trafford, á milli Englands og Austurríkis. Fyrsti leikur Íslands er svo gegn Belgíu 10. júlí á akademíuleikvangi Manchester City.