Málið á rætur að rekja til þess að Samgöngustofa hefur látið snúa Amelíu Rose í land með vísan til þess að skipið uppfylli ekki öryggiskröfur sem gerðar eru til að flytja fleiri en tólf farþega.
„Sú meðferð sem Amelía Rose og Sea Trips hafa fengið hjá Samgöngustofu er ekki hægt að kalla neitt annað en einelti. Vart er hægt að finna skýrara dæmi um mismunun opinberra aðila og misbeitingu valds,“ sagði í tilkynningu frá forsvarsmönnnum Sea Trips þann 13. apríl síðastliðinn.
Samgöngustofa þvertók fyrir að hafa beitt fyrirtækið einelti nokkrum dögum seinna.
Helsta ágreiningsefni Samgöngustofu og Sea trips er að fyrirtækið telur skráningu Amelíu Rose í skipaskrá ranga. Skipið er skráð sem nýtt skip en vægari öryggiskröfur eru gerðar til skipa sem skráð eru gömul.
Til þess að skip verði skráð gamalt þarf kjölur skipsins að hafa verið lagður eða að það hafi verið á svipuðu smíðastigi 1. janúar 2001 eða síðar.
Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur segir að lögð hafi verið fram gögn við rekstur málsins sem sanni að hafist hafi verið handa við smíði skipsins árið 2003, því sé ljóst að kjölur skipsins hafi ekki verið lagður fyrir 2001.
Þá segir að Sea trips ehf. hafi ekki lagt fram nein gögn sem renna stoðum undir þá fullyrðingu fyrirtækisins að skipið ætti að skrá sem gamalt skip.
Með vísan til þess segir í niðurstöðu héraðsdóms að Samgöngustofa hafi farið að öllu eftir stjórnsýslulögum við meðferð málsins og því væri ekki ástæða til að fella ákvörðun stofnunarinnar úr gildi og Samgöngustofa því sýknuð af kröfu fyrirtækisins.
Þá var Sea trips ehf. dæmt til að greiða Samgöngustofu 600 þúsund krónur í málskostnað.