Víkingur og Breiðablik eru komin í þriðju umferð í undankeppni Sambandsdeild Evrópu en árangur þeirra lið sem og sigur KR gegn Pogon í seinni leik liðsins í annarri umferð undankeppninnar þýðir að keppt verður um fjögur Evrópusæti á næsta keppnistímabili í Bestu deild karla og bikarkeppninni.
Það er Víkingurinn Haraldur Haraldsson, sérlegur sérfræðingur Íslands, um styrkleikalista UEFA sem bendir á þetta á twitter-síðu sinni.
Ísland hefur tryggt sér fjögur Evrópusæti! Það verða fjögur lið sem vinna sér Evrópusæti í deild og bikar á næsta ári og keppa 2024 á Evrópumótunum. Fimm neðstu þjóðirnar utan Liechtenstein fá bara þrjú lið. Nú eru sex þjóðir fyrir neðan okkur úr leik. #fotboltinet #staðfest pic.twitter.com/Eo6vqoHt4D
— Haraldur Haraldsson (@HarHaralds) July 28, 2022
Víkingur mun leika við pólska liðið Lech Poznan í þriðju umferð undankeppninnar á meðan Breiðablik mætir tyrkneska liðinu Istanbul Basaksehir. Fyrri leikir liðanna fara fram 4. ágúst næstkomandi og seinni leikirnir sléttri viku síðar.
Bæði íslensku liðin hefja viðureignir sínar hér heima og leika seinni leikina ytra. Liðin sem hafa betur í þriðju umferðinni fara í umspil um sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar en leikið var í fyrsta skipti í þessari keppni á síðustu leiktíð.