Hörður Björgvin var í hjarta varnar gríska liðsins Panathinaikos sem tók á móti Slavia Prag á meðan Hólmbert Aron lék sem fremsti maður er Lilleström heimsótti Royal Antwerp í Belgíu.
Panathinaikos gerði 1-1 jafntefli við Slavia Prag á heimavelli sínum. Gestirnir höfðu unnið fyrri leikinn 2-0 og var gríska liðið í leit að öðru marki sínu er Tékkarnir jöfnuðu metin í blálokin í kvöld. Einvíginu lýkur því með 3-1 sigri Slavia Prag. Hörður Björgvin fékk gult spjald á 80. mínútu leiksins.
Lilleström átti litla möguleika eftir að hafa tapað heimaleiknum 1-3 og fór það svo að Belgarnir unnu sannfærandi 2-0 heimasigur í kvöld. Lokatölur í einvíginu því 5-1 Antwerp í vil og Lilleström úr leik. Hólmbert Aron spilaði 65 mínútur.